Samtök íþróttafréttamanna hafa nú opinberað það hvaða tíu íþróttamenn fengu flest atkvæði í kjörinu á Íþróttamanni ársins fyrir árið 2021 en eins eru þrír tilnefndir sem þjálfari ársins 2021 og þrjú lið sem lið ársins 2021.
29 meðlimir úr Samtökum íþróttafréttamanna tóku þátt í kjörinu að þessu sinni. Sjá Frétt Vísis.
Kolbrún Þöll Þorradóttir er á listanum en hún var valin Fimleikakona Íslands fyrr í desember mánuði. Kolbrún Þöll lék stórt hlutverk hjá Kvennalandsliði Íslands þegar liðið vann sér inn Evrópumeistaratitilinn. Hér má lesa skemmtilegt viðtal við Kolbrúnu Þöll.
Kvennalið Íslands sem sótti sér Evrópumeistaratitilinn í desember er á lista yfir Lið ársins. Hér má sjá frétt sem birtist á heimasíðu sambandsins, augnabliki eftir liðið landaði stóra titlinum.
Það er okkur mikill heiður að eiga fimleikafólk á listanum og við bíðum spennt eftir því að fylgjast með beinni útsendingu á RÚV, þann 29.desember, þegar kjörið fer fram.
Fimleikasamband Íslands óskar Kolbrúnu Þöll og Kvennalandsliði Íslands innilega til hamingju með árangurinn.