Select Page

Heiðursfélagar FSÍ

Eftirtaldir aðilar hafa verið gerðir heiðursfélagar Fimleikasambands Íslands

Sólveig Jónsdóttir

Birgir Guðjónsson

2022

Birgir Guðjónsson hefur tengst fimleika- og reyndar frjálsíþróttahreyfingunni líka frá unga aldri sem iðkandi, þjálfari og dómari, þó lengst af sem iðkandi og er enn að. Hann hefur verið ötull sjálfboða liði hreyfingarinnar, þar sem hann hefur verið læknir fimleikamóta, stjórnarmaður og formaður á sínum langa ferli. Hann æfði fimleika hjá ÍR undir handleiðslu Valdimars Örnólfssonar, fyrsta formanns FSÍ, sem fær Birgi svo til að taka við þjálfun á drengjaflokki félagsins haustið 1959, en þar sem ekki var lengur virk stjórn á deildinni lenti allt á breiðum herðum Birgis, hann varð allt í senn, þó ekki formlega, formaður, stjórn og þjálfari. Birgir var nýjungagjarn þjálfari og tók upp á þeirri nýbreytni að sýna fimleika í hálfleik á boltaleikjum. Þær sýningar vöktu mikla athygli, það mikla að þær stálu meira að segja athygli frá landsliðsmönnum, bæði í handbolta og körfubolta. Því miður fór aðeins að halla undan starfsemi fimleikadeildarinnar, þrátt fyrir velgengina og fór það svo að við brottflutning Birgis til Bandaríkjanna til náms árið 1966, lögðust fimleikar í ÍR alveg niður. Fimleikasamband Íslands var stofnað 1968. Um það leyti sem ÍR flutti í Breiðholt hvatti sambandið stjórn ÍR til þess að fimleikar yrðu aftur teknir upp. Í bréfi frá FSÍ árið 1971 er eindregið óskað eftir því við ÍR að fimleikarnir verði endurreistir í félaginu. Það varð samt ekki raunin fyrr en 1978 þegar Birgir var komin heim úr námi og var kjörinn formaður fimleikadeildarinnar sem var þá aftur orðin sjálfstæð deild. Birgir lagði á sig mikla vinnu við að halda fimleikunum á lofti, íþróttinni sem félagið var stofnað um í upphafi. Birgir er fyrirmynd okkar allra, hann sannar það sem Halldór Magnússon, fyrrum formaður ÍR sagði um árið: „Fyrir nokkrum árum fór fram athugun á því hvaða áhrif íþróttirnar hefðu á aldur þeirra, er stunda þær. Kom þá í ljós, að þeir menn, sem æfðu fimleika og það meira að segja áhaldafimleika og kepptu í þeim, urðu langlífastir allra íþróttamanna. Þetta bendir til þess, að það sé hollt að æfa leikfimi, einnig keppnisleikfimi, og menn verða bæði hraustir og langlífir á því að æfa fimleika.“ Fimleikasambandið þakkar Birgi fyrir hans vinnu í þágu fimleika á Íslandi.

Sólveig Jónsdóttir

Árni Þór Árnason

2021

Útjónarsamur, skipulagður, hreinskilin og lausnarmiðaður eru orð sem lýsa heiðursfélaga Fimleikasambandsins 2021 mjög vel. Árni Þór Árnason er fæddur í Reykjavík árið 1951, hann er giftur Guðbjörgu Jónsdóttur og eiga þau þrjú börn. Árni var formaður Fimleikasambandsins á árunum 1996-2002. Áður en Árni tók við formannssætinu var hann í stjórn Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og er enn í dag eini maðurinn sem hefur sagt sig úr stjórn ÍSÍ til að taka við formennsku sérsambands. Hann starfaði sem framkvæmdastjóri og síðar forstjóri Austurbakka hf. sem var á sínum tíma stærsta heildvöruverslun landsins. Árni hefur verið stjórnarmaður og stjórnarformaður margra fyrirtækja í gegnum tíðina og hefur ekki látið sitt eftir liggja í félagsstörfum. Árni er maður sem lætur verkin tala og vill að aðrir geri slíkt hið sama. Í stjórnartíð Árna hjá Fimleikasambandinu var grettistaki lyft í fjármálarekstri sambandsins og skiluðu Árni og hans stjórn gríðarlega góðu búi. Fimleikasambandið þakkar Árna Þór fyrir hans vinnu fyrir fimleika á Íslandi.

Sólveig Jónsdóttir

Hafsteinn Þórðarson

2019

Hafsteinn hefur starfað nær sleitulaust fyrir Fimleikafélagið Björk og fimleikahreyfinguna frá árinu 1993 en þá tók hann við sem formaður félagsins. Hann gengdi því embætti í þrjú ár en tók þá sæti í stjórn ÍBH og sat þar í 16 ár, síðustu árin sem varaformaður. Ekki nóg með að vera í stjórn ÍBH og formaður eða stjórnarmaður hjá Björk þá var Hafsteinn kosinn í stjórn FSÍ árið 1996 og sinnti þar stöðu gjaldkera þar sem hann vann kraftaverkastarf fyrir sambandið okkar. Fróðir menn segja að við værum alls ekki á þeim stað sem við erum í dag ef ekki væri fyrir Hafstein. Hafsteinn hefur haft stefnumótandi áhrif, hann tölvuvæðir, nútímavæðir og hefur komið bókhaldi bæði Bjarkanna og FSÍ í viðurkennt form. Hafsteinn hefur alla tíð talað mikið um mikilvægi þess að hreyfingin sæki sér menntun og reynslu út fyrir landsteinana og með stuðningi hans hafa þjálfarar sem og iðkendur sótt sér þekkingu og keppnisreynslu erlendis. Hafsteinn stuðlaði að því að stofnuð var félagadeild í kringum 65 ára afmæli Fimleikafélagsins Björk sem hefur það að markmiði að fegra umhverfi félagsins sem og að styðja við starfssemi þess. Hafsteinn hefur því haft leiðandi áhrif á að Fimleikafélagið Björk er þar sem það er í dag og hefur unnið mikið og óeigingjarnt starf fyrir félagið. Eftir farsæla stjórnarsetu hjá Fimleikasambandinu skilaði Hafsteinn af sér góðu búi en hefur þó haldið áfram að vinna að góðum fjárhag sambandsins sem skoðunarmaður reikninga. Fimleikasambandið kann honum bestu þakkir fyrir mikið og óeigingjarnt sjálfboðastarf í þágu fimleika á Íslandi.

Sólveig Jónsdóttir

Hlín Árnadóttir

2018

Hlín fæddist í Reykjavík 15.ágúst 1945 en 1949 fluttist fjölskylda hennar að Reykjalundi í Mosfellsbæ þar sem hún ólst upp, en foreldrar hennar voru frumbyggjar í baráttunni fyrir SÍBS. Hlín fór ung að árum til Danmerkur til náms, fyrst í lýðháskóla og síðan í íþróttaskólann við Sönneborg. Vorið 1965 lauk Hlín prófi frá íþróttakennaraskólanum á Laugarvatni og hóf kennslu strax um haustið. Hlín hóf kennslu við Öldutúnsskóla í Hafnarfirði 1969. Hún byrjaði að starfa hjá Fimleikafélaginu Björk haustið 1970 auk þess að kenna við Öldutúnsskóla. Í upphafi kenndi hún eingöngu frúarleikfimi en fljótlega var stofnaður telpnaflokkur. Hlín náði ótrúlegum árangri með nemendur sína í gegnum árin þrátt fyrir litla aðstöðu til að byrja með. Hún hefur átt marga Íslands og bikarmeistara og hafa margir nemendur hennar verið í landsliði Íslands. Hlín hefur tekið þátt í að semja og stjórna dansverkum fyrir fjölmargar hátíðarsýningar hjá ÍSÍ og FSÍ. Hún hefur gegnt mörgum trúnaðarstörfum fyrir hönd Fimleikafélagsins Björk meðal annars hjá FSÍ og Íþróttabandalagi Hafnarfjarðar. Á löngum starfsferli hjá Fimleikafélaginu Björk hefur aðstaða félagsins breyst mikið og er það ekki síst Hlín að þakka þar sem hún hefur alla tíð barist fyrir velferð félagsins. Hlín var í byggingarnefnd fyrir íþróttamiðstöðinni Björk og að lokum tókst að koma upp fyrsta sérhæfða fimleikahúsi landsins. Hlín var ekki bara góður þjálfari sem helgaði sig starfinu heldur einnig góður félagi nemenda sinna. Hlín er fyrirmynd fyrir alla í íþróttahreyfingunni. Það finnst vart það starf innan hreyfingarinnar sem hún hefur ekki gengið í, hún hefur gert það með bros á vör og lagt sig fram við að smita gleðinni til okkar hinna sem höfum fengið að starfa með henni. Það eru forréttindi að fá að starfa með og læra af manneskju eins og Hlín. Ástríðan  sem hún hefur fyrir fimleikum mun lifa í hreyfingunni.  

Guðmundur

Guðmundur Haraldsson

2017

Guðmundur Haraldsson var formaður Fimleikasambandsins 1994-1996. Guðmundur byrjaði starfa við fimleika þegar að stelpurnar hans voru að æfa í Ármanni, hann tók sæti í stjórn og vann mikið og gott starf fyrir félagið þar sem hann kom að fjáröflunum og uppbyggingu á aðstöðunni. Stóra verkefnið þeirra var að búa til gryfju með svampi sem var sú fyrsta sinnar tegundar í Reykjavík. Þegar Guðmundur tók sæti í stjórn Fimleikasambands Íslands, var Margrét Bjarnadóttir formaður sambandsins. Þá var venjan (og er reyndar enn) að skipta verkum á milli stjórnarmanna á fyrsta fundi og þar sem að Guðmundur var vant við látinn á fyrsta fundi, þá var hann settur í sæti varaformanns. Fjórum árum seinna tók hann við formennsku sambandsins og við tók viðburðamikill tími en Guðmundur lagði mikla áherslu á að við hér á Íslandi gætum fylgst með þróun, þjálfun og uppbyggingu fimleika í heiminum og var duglegur að senda okkar fulltrúa á fundi, bæði tæknilega og stjórnunarlega. Þetta tókst afar vel og vorum við aðilar að mörgum nýjungum á þessum tíma, þó ber að nefna sérstaklega samskipti hans við Alþjóðafimleikasambandið þegar hann vann að uppbyggingu þolfimi í heiminum og veru þeirra innan FIG. Þeir sem unnu með Guðmundi á þessum tíma eru sammála um að það er mjög gott að vinna með honum, það er svo mikill kraftur í honum, þegar að eitthvað var ákveðið þá var alltaf gengið í það af fullum krafti. Fimleikasambandið er Guðmundi ákaflega þakklátt fyrir tímann sem hann hefur unnið fyrir fimleika. 

Sólveig Jónsdóttir

Ásgeir Guðmundsson

2016

Ásgeir Guðmundsson er kennari af lífi og sálHann hefur helgað líf sitt kennslu bæði á skólabekk og í íþróttunum. Hann fór til náms bæði til Kaupmannahafnar og Stokkhóms, þar sem hann nam kennslufræði ungum nemendum hér á Íslandi til heillaÁsgeir hefur haldið fjölda námskeiða hér á landi um kennslufræðileg efni, hann var kennari í Laugarnesskóla, yfirkennari í Hlíðarskóla og síðar skólastjóri skólansÞað má sjá þegar litið er yfir feril Ásgeirs að hann er íþróttaáhugamaður, kenndi í íþróttaskóla  og var einnig landsliðsþjálfari í körfuknattleik. Það var áður en hann tók að sér formennsku hjá Fimleikasambandi Íslands. En því embætti gengdi hann frá 1971 – 1977. Ásgeir sat í framkvæmdarnefnd Norrænnar fimleikahátíðar sem haldin var á Íslandi árið 1973, hátíðar sem er sú stærsta sem haldin hefur verið á Íslandi og allar skærustu stjörnur fimleikanna á Norðulöndunum sóttu. Hátt í 1000 þátttakendur komu frá hinum Norðurlöndunum og sýndu listir sínar á þessari stórkostlegu sýningu í LaugardalnumÁ hátíðinni var Ásgeir sæmdur heiðursorðu Norræna Fimleikasambandsins. Ásgeir gerði mjög mikið fyrir fimleikahreyfinguna. Allt sem hann kom að hreinlega blómstraði. Þeir sem unnu með honum, hafa haft orð á því hversu gaman og gott það var að vinna með honum. Hann er bæði hugmyndaríkur og sanngjarn í öllu sem hann gerir. Fimleikasambandið er Ásgeiri ákaflega þakklátt fyrir hans vinnu í þágu fimleika á Íslandi. 

Sólveig Jónsdóttir

Valdimar Örnólfsson

2015

Valdimar er fyrsti formaður Fimleikasambandsins sem hann, ásamt góðu fólki stofnaði sambandið árið 1968 og fyrir það erum við honum ákaflega þakklát. Valdimar er mikill hugsjónamaður og hefur hann meðal annars hlotið fálkaorðuna fyrir störf sín innan íþróttahreyfingarinnar, hana hlaut hann árið 1983 og var þá titlaður hvorki meira né minna en fimleikastjóri. Það er óhætt að fullyrða að Valdimar hefur helgað líf sitt kennslu, kynningu á íþróttum og arðsemi þeirra fyrir líkama og sál. Af mörgu er að taka þegar farið er yfir allt sem Valdimar hefur áorkað tengt íþróttum og heilsu í gegnum tíðina, en eitt af því er morgunleikfimin í útvarpinu. En þátturinn hefur verið á dagskrá frá árinu 1957 og er elstur þeirra útvarpsþátta sem eru á dagskrá Rásar eitt. Valdimar var fyrsti þáttastjórnandinn og var hann þar í 25 ár.  Því er óhætt að segja að Valdimar sé einskonar sameign þjóðarinnar enda hefur hann hlotið margar viðurkenningar hér á landi. Fimleikasambandið er þakklátt Valdimari, fyrir allt það stórbrotna og óeigingjarna starf sem hann hefur unnið íþróttum og fimleikum til heilla með ævistarfi sínu. Starfsferill Valdimars er fjölskrúðugur og tekur maður sérstaklega eftir öllum formannstitlunum sem hvarvetna dúkka upp en vænst þykir okkur þó um að hann hafi verið formaður Fimleikasambands Íslands. 

Sólveig Jónsdóttir

Ástbjörg Gunnarsdóttir

2014

Ástbjörg Gunnarsdóttir var formaður Fimleikasambandsins á árunum 1977-1981 og var fyrsta konan til að gegna því embætti. Ástbjörg er mikil hugsjónakona og hefur hún meðal annars fengið fálkaorðuna fyrir störf sín innan íþróttahreyfingarinnar. Hún hefur kennt leikfimi alla sína starfsævi og er talað um hana sem frumkvöðul íþróttakennara á Íslandi. Ástbjörg hefur farið með hópana sína mjög víða um heim og sýnt sín atriði á fjölbreyttum sýningarhátíðum. Árið 1973 stóð Fimleikasambandið fyrir mikilli sýningarhátíð, þar sem aðalsýningarstaður hátíðarinnar var íþróttahöllin í Laugardal og tóku hátt í 1000 þátttakendur frá Norðurlöndunum þátt. Ástbjörg var í framkvæmdarnefnd hátíðarinnar, en þá gegndi hún formennsku í námskeiðanefnd Fimleikasambandsins og átti stóran þátt í velgengni hátíðarinnar, sem var í fyrsta skipti sem Fimleikasambandið tók að sér erlent mótahald og gerði það svo glæsilega að enn hafa menn á orði hversu vel var að því staðið. Fimleikasambandið er þakklátt Ástbjörgu, fyrir allt það stórbrotna og óeigingjarna starf sem hún hefur unnið íþróttum og fimleikum til heilla með ævistarfi sínu.  

Margrét

Margrét Bjarnadóttir

2013

Margrét var stofnandi Íþróttafélagsins Gerplu og er ein af þeim sem komu félaginu til manns. Margrét hefur alla sína tíð unnið í íþróttasamfélaginu, hún þjálfaði fimleika lengi framan af og hefur í seinni tíð starfað náið með fleiri félögum eins og Glóð í Kópavogi. Íþróttafélagið Glóð í Kópavogi var stofnuð 2004 af hópi áhugafólks um heilbrigða lífshætti. Kjörorð félagsins eru: Hreyfing, fæðuval, heilsa, sem ríma vel við hvernig Margrét hefur lifað sínu lífi og hvatt aðra til að tileinka sér. Hópar undir stjórn Margrétar hafa unnið til margvíslegra verðlauna í gegnum árin og árið 2012 leiddi hún sýningarhóp í flokki eldriborgara til sigurs á erlendri fimleikahátið. Auk langrar stjórnarsetu í Gerplu, þar sem hún meðal annars sinnti formennsku, hefur Margrét setið í stjórn og/eða nefndum margra annarra samtaka, hún var formaður Fimleikasambands Íslands í 6 ár, sat í Ólympíunefnd Íslands, UMSK, Glóð ofl. Árið 2015 var hún gerð að Heiðursfélaga ÍSÍ fyrir störf sín í þágu íþróttahreyfingarinnar og þann 1. janúar 2020 var Margrét sæmd riddarakrossi hinar íslensku fálkaorðufyrir störf sín á vettvangi íþrótta og æskulýðsmála.

 

Birna Björnsdóttir

Birna Björnsdóttir

2012

Birna Björnsdóttir hefur unnið fyrir Fimleika á Íslandi síðan 1980. Fyrst sem stjórnarkona, síðan sem varaformaður og tók svo að sér formennskuna árið 1985. Formanns embættinu gegndi hún í tvö ár en hún átti svo eftir að snúa aftur í stjórn á seinni árum og gegna meðal annars varaformennsku frá 2008-2012. Birna hafði mikinn áhuga á að bæta faglegt starf sambandsins og tók í framhaldinu sæti í Tækninefnd í áhaldafimleikum kvenna. Hún hafði mikinn áhuga fræðslu og menntun þjálfara og vildi stuðla að því að gera starfið í hreyfingunni enn faglegra og hóf þá störf í Fræðslunefnd FSÍ þar sem hún tók þátt í undirbúningi við skipulag á bættu fræðslukerfi sambandsins. Birna hafði mikinn áhuga á að efla samvinnu Norðurlandanna í fimleikum, hún sat í stjórn tækninefnda Fimleikasambands Norðurlanda, bæði í hópfimleikum og áhaldafimleikum sem og stjórn sambandsins í hátt í tíu ár. Ástríða hennar lá þó alltaf í fimleikum fyrir alla og verkefnum tengdum því að allir geti fundið sér farveg innan fimleikanna. Birna sat í nefnd um fimleika fyrir alla á Íslandi og hjá Evrópska Fimleikasambandinu. Þar starfaði hún í átta ár, eða tvö tímabil, seinna tímabilið sem varaformaður nefndarinnar. Þegar því lauk hlaut hún kosningu í counsil hjá Alþjóðafimleikasambandinu (FIG) þar sem hún starfaði í fjögur ár og lét mikið að sér kveða og ruddi um leið brautina fyrir Ísland sem þátttakanda í alþjóðlegu starfi. Það eru fáir sem hafa snert starf Fimleikasambandsins á eins fjölbreyttan hátt og Birna, hún hefur alltaf verið boðin og búin að taka að sér verkefni fyrir sambandið og er alltaf til staðar fimleikum í landinu til heilla.