Select Page

Almennt um leyfiskerfið

Hvað er leyfiskerfi FSÍ 

Fimleikasamband Íslands er með leyfiskerfi sem allir iðkendur í fimleikahreyfingunni eru skráðir í.

Fimleikafélögin á Íslandi sjá um að skrá sína iðkendur hjá Fimleikasambandinu og greiða fyrir þá leyfisgjöld í samræmi við skráningu. Þetta gerir Fimleikasambandinu jafnframt mögulegt að styrkja heildar umgjörð fimleika á Íslandi, allt frá fræðslu til afreksstarfs.

Hvers vegna leyfiskerfi FSÍ

Fimleikasambandið hefur það hlutverk að styðja við fimleikahreyfinguna á Íslandi. Áhugi á fimleikum hefur aldrei verið meiri og það er okkar hlutverk að styrkja og styðja félögin í landinu.
Fimleikasambandið hefur yfir að ráða einu öflugasta fræðslukerfi íþróttahreyfingarinnar. Þar er boðið upp á þjálfaranámskeið á þremur stigum ásamt fleirum þjálfaranámskeiðum, auk annarar fræðslu fyrir iðkendur, aðstandendur og þá sem starfa í hreyfingunni.

Við leggjum sífellt meiri áherslu á að gera íþróttina okkar aðgengilegri fyrir unga sem aldna með því að auka fjölbreytni og veita iðkendum tækifæri til að tilheyra hreyfingu sem er fyrir alla.
Það er fimleikafólkið okkar sem myndar félögin og félögin sem mynda Fimleikasambandið. Án þín er ekkert fimleikasamfélag og án þín getur íþróttin okkar ekki haldið áfram að þróast og vaxa.

Hvað þýðir leyfiskerfi FSÍ fyrir þig?

Fyrst og fremst er leyfiskerfið gagnagrunnur sem gerir Fimleikasambandinu kleift að halda utan um skráningar iðkenda, þjálfara og dómara. Með því tryggjum við að utanumhald og framkvæmd móta, sem og menntun þjálfara og dómara sé eins og best verður á kosið. Leyfiskerfið gerir okkur kleift að tryggja að þjálfarar séu með menntun sem er í samræmi við getustig iðkenda, dómarar séu með gild réttindi til að dæma á mótum og iðkendur séu að fá verkefni við hæfi.

Leyfisgjaldið stendur straum af kosnaði við þessarar umsýslu, en aðaláherslan er á að styrkja fræðslukerfi sambandsins. Þjálfaramenntun og þjónusta sem við getum veitt iðkendum skiptir okkur miklu máli.