Select Page

Kolbrún Þöll Þorradóttir, fimleikakona ársins 2021 og Evrópumeistari er ein af fremstu hópfimleikakonum í heiminum í dag. Kolbrún Þöll kom í skemmtilegt spjall til okkar og svaraði nokkrum spurningum um fimleikana og hvað afrekskona gerir þegar hún er ekki í fimleikum.

Hvenær byrjaðir þú að æfa fimleika?

Ég byrjaði 5 ára í krílahóp, fór svo í  eitt ár í ballett og hélt svo áfram í fimleikunum.

Hvernig verður maður svona góður í fimleikum?

Ef þú ert með metnað og vilja þá kemstu langt á hugarfarinu. Þetta er þrotlaus vinna og það skiptir miklu máli að setja sér markmið.

Hvað er draumastökkið þitt?

Það er að keppa með þrefalt heljarstökk með hálfum snúningi á trampólíni. Ég ætlaði að keppa með það á Norðurlandamótinu 2019 en meiddi mig aðeins í fætinum þannig að ég keppti ekki á trampólíni á því móti. En ég held að það væri draumur að gera þrefalt á móti.

Hvað gerir þú fyrir utan fimleikana?

Ég er í næringafræði við Háskóla Íslands, er þar á þriðja ári og er einnig í fullu starfi hjá World Class, þannig það er alveg nóg að gera.

Hvað ætlaru að verða þegar þú verður stór?

Ég er ekki búin að ákveða mig en vonandi nýti ég námið mitt eitthvað. Ég ætla að vera í fimleikum eins lengi og ég get og síðan tekur eitthvað annað við.

Getur þú sagt okkur hvað þú hefur keppt á mörgum Evrópumótum og árangrinum á þeim?

Ég hef keppt á fimm Evrópumótum. Fyrsta var árið 2012 en þá var ég 12 ára í unglingaflokki og við unnum það mót, árið 2014 var ég í unglingaflokki líka og þá tókum við þriðja sætið. 2016 og 2018 var ég kvennaliðinu og við enduðum í 2. sæti og svo í 1. sæti núna 2021.

Þess má geta að Kolbrún Þöll hefur verið valin í úrvalslið Evrópumótsins fjórum sinnum, 2014 og 2016 í heildarlið mótsins, þau ár var ekki valið á ákveðin áhöld, 2018 fyrir gólfæfingar og 2021 fyrir æfingar á trampólíni.

Ertu með einhverja rútínu fyrir keppni?

Ég er mjög vanaföst á hvað ég borða fyrir mót sem getur verið erfitt erlendis, en ekki beint rútínu en eina sem er kannski skrítið sem ég geri, er að þegar ég vakna þá þarf ég alltaf að byrja daginn á að segja já til að byrja daginn á jákvæðum nótum.

Hvað stendur upp úr á árinu?

Það er náttúrulega Evrópumeistaratitilllinn, en líka undirbúningurinn fyrir þetta mót. Það er búið að færa mótið einu sinni og þetta er búið að vera smá bras en svo small þetta allt, liðið small saman og það er búið að vera ógeðslega gaman að æfa með þessu liði. Við stefndum allar að því sama og  æðislegt að uppskera alveg eins og við sáðum.

Hvað er framhaldið?

Í fyrsta lagi njóta þess að vera loksins Evrópumeistari, æfingar með félagsliðinu mínu, setja sér ný markmið og svo er mjög stutt í næsta Evrópumót í Lúxemborg 2022 og það eru líka stór markmið fyrir það mót sem ég er spennt fyrir.

Við óskum Kolbrúnu Þöll til hamingju og hlökkum til að fylgjast með henni á nýju ári.

#fimleikarfyriralla #áframísland