Select Page

Um helgina fór GK meistaramót í áhaldafimleikum fram og þar með lauk frábæru keppnistímabili FSÍ í áhaldafimleikum. Á mótinu voru stigameistarar tímabilsins krýndir en stigahæsti keppandinn á mótum tímabilsins stendur uppi sem sigurvegari í Stigakeppni FSÍ í kvennaflokki, karlaflokki og unglingaflokki kvenna og karla.

Stigameistarar hafa ekki verið krýndir síðan Covid herjaði á heiminn og því var ánægjulegt að geta tekið upp þráðinn. Þau mót sem telja inn í Stigameistarakeppnina eru: Bikarmeistaramót, Íslandsmeistaramót og GK Meistaramót.

Stigameistarar í fullorðinsflokki voru þau Agnes Suto og Martin Bjarni Guðmundsson en bæði koma þau úr Gerplu. Stigameistarar í unglingaflokki voru Lilja Katrín Gunnarsdóttir úr Gerplu og Lúkas Ari Ragnarsson úr Björk.

Agnes, sem keppti á öllum mótum tímabilsins hlaut, 500 stig í Stigameistarakeppninni, en mest er hægt að fá 600 stig. Næstar á eftir henni voru þær Magrét Lea Kristinsdóttir og Thelma Aðalsteinsdóttir sem voru báðar með 350 stig. Hildur Maja Guðmundsdóttir var næst á eftir þeim með 340 stig og Iðunn Embla Njálsdóttir með 248 stig. Þess má geta að Agnes var einnig Stigameistari árið 2019 þegar Stigameistarar voru síðast krýndir.

Agnes er búin að eiga frábært keppnistímabil, hún hefur ekki aðeins keppt á öllum áhaldafimleikamótum vetrarins heldur er hún einnig búin að keppa á öllum hópfimleikamótum vetrarins. Agnes fór yfir keppnistímabilið í skemmtilegu viðtali við Rúv nú á dögunum.

Agnes með sitt fræga uppstökk á jafnvægisslá.

Martin Bjarni Guðmundsson, sem er einnig búinn að keppa á öllum mótum tímabilsins, hefur staðið sig gríðarlega vel í vetur og endaði hann með 745 stig í Stigakeppninni, en mest er hægt að fá 900 stig. Martin tók við titlinum af Eyþóri Erni Baldurssyni sem var Stigameistari árið 2019. Næstir á eftir honum voru þeir Ágúst Ingi Davíðsson með 654 stig, Atli Snær Valgeirsson með 635 stig, Sigurður Ari Stefánsson með 528 stig og Dagur Kári Ólafsson með 519 stig.

Það verður gaman að fylgjast með Martin Bjarna í sumar en hann mun næst keppa í júní á Heimsbikarmóti í Osijek, Króatíu.

Martin Bjarni fagnar góðum árangri með þjálfara sínum Róberti Kristmannssyni.

Lilja Katrín og Lúkas Ari eru ekki bara Íslandsmeistarar í unglingflokki 2023 heldur urðu þau einnig Stigameistarar unglinga. Bæði kepptu þau á öllum mótum vetrarins og því ánægjulegt að sjá þau hljóta Stigameistaratitlana einnig.

Lilja Katrín Gunnarsdóttir, hlaut 455 stig og tók því við titlinum frá Guðrúnu Eddu Ming Harðardóttur sem var Stigameistari árið 2019. Næstar á eftir Lilju voru þær Rakel Sara Pétursdóttir með 417 stig, Kristjana Ósk Ólafsdóttir með 364 stig, Katla María Geirsdóttir með 317 stig og Auður Anna Þorbjarnardóttir með 294 stig.

Lúkas Ari Ragnarsson, hlaut 715 stig og tók því við titlinum af Jónasi Inga Þórissyni sem var Stigameistari árið 2019. Næstir á eftir Lúkasi voru þeir Stefán Máni Kárason, með 645 stig, Davíð Goði Jóhannsson með 630 stig, Ari Freyr Kristinsson með 613 stig og Kári Pálmason með 599 stig.

Lilja og Lúkas munu bæði keppa á Norðurlandamóti unglinga sem haldið verður í Helsinki í næstu viku. Það eru því spennandi tímar framundan hjá þessu flotta fimleikafólki.

Lúkas og Lilja, Íslands- og Stigameistarar árið 2023

GK meistaramót

Á GK meistaramótinu, sem haldið var í Gerplu, kepptu alls 64 keppendur. Mótahaldið var glæsilegt og stemmningin frábær.

GK meistarar í fullorðinsflokki voru þau Agnes Suto og Dagur Kári Ólafsson úr Gerplu. Agnes sigraði mótið með yfirburðum en hún endaði með 46.566 stig. Keppnin var töluvert harðari í karlaflokki og sigraði Dagur með 77.664.

GK meistarar í unglingaflokki voru þau Lúkas Ari Ragnarsson úr Björk og Kristjana Ósk Ólafsdóttir úr Gerplu. Bæði áttu þau nokkuð öruggann sigur, Lúkas endaði með 68.264 stig og Kristajana með 44.733 stig.

GK meistari drengja var Kári Pálmason úr Gerplu með 60.664 stig. Það var hörð barátta í stúlknaflokki og enduðu þær Sigurrós Ásta Þórisdóttir úr Stjörninni og Rakel Sara Pétursdóttir úr Gerplu báðar sem GK meistarar stúlkna, þær hlutu báðar 43.599 stig samanlagt.

Úrslit mótsins má finna hér og myndir af mótinu má finna hér.

Við óskum öllum keppendum til hamingju með árangurinn um helgina og þökkum Gerplu fyrir frábært mótahald. Einnig þökkum við áhorfendum fyrir að fjölmenna í stúkuna, án ykkar væru mótin ekki jafn skemmtileg.

Jafnframt þökkum við öllum keppendum, dómurum, þjálfurum, mótshöldurum og sjálfboðaliðum keppnistímabilins fyrir frábæran vetur. Sjáumst í haust!