Select Page

Stjórn Fimleikasambands Íslands hefur valið fimleikafólk ársins 2022

Fimleikakona ársins er Thelma Aðalsteinsdóttir

Thelma varð Íslandsmeistari í fjölþraut í fyrsta sinn á sýnum ferli á árinu, þar sem hún sýndi glæsileika og mikla yfirburði en hún varð einnig bikarmeistari með liði sínu Gerplu. Thelma leiddi liðið sitt áfram til sigurs og tókst það með yfirburðum. Thelma var valin í landslið Íslands til að keppa á Norðurlandamóti sem haldið var í Kópavogi í sumar. Thelma gerði sér lítið fyrir og varð Norðurlandameistari á slá og íslenska liðið lenti í 3. sæti í liðakeppninni sem er frábær árangur. Thelma var stigahæst Íslendinganna í fjölþraut þar sem hún lenti í 6. sæti með samtals 48,065 stig sem er hennar besti árangur til þessa. Thelma var valin í landslið fyrir Evrópumótið sem fór fram í Munich, Þýskalandi í lok ágúst. Mótið var úrtökumót fyrir Heimsmeistaramótið sem fór fram í Liverpool, Englandi í lok október, í ár var það í fyrsta skiptið sem þátttökuréttur á mótið fór fram í gegnum Evrópumótið. Thelma átti frábært Evrópumót sem tryggði henni þátttökurétt á Heimsmeistaramótið, Thelma varð áttunda í röðinni til þess að tryggja sér þátttökurétt einstaklinga. Thelma kláraði svo keppnistímabilið með frábærum árangri á Heimsmeistaramótinu.  Vakti það heimsathygli hve mikill glæsileiki og gleði geislaði af Thelmu á stórmótunum.  Thelma æfir að meðaltali 25 klst. á viku en nemur samhliða því Lyfjafræði við  Háskóla Íslands.

Thelma er mikil fyrirmynd fyrir ungar fimleikastúlkur innan sem utan vallar.

Fimleikakarl ársins er Valgarð Reinhardsson

Valgarð er okkar fremsti fjölþrautarkeppandi, og er hann nú sexfaldur Íslandsmeistari. Hann varð Íslandsmeistari í fjölþraut á árinu og gerði sér lítið fyrir og vann til verðlauna á öllum áhöldum. Valgarð er því ríkjandi Íslandsmeistari á gólfi, stökki og svifrá, vann til silfurverðlauna á hringjum og á tvíslá og brons á boga. Lið Valgarðs, Gerpla, varð einnig bikarmeistari á árinu. Á Norðurlandamótinu sem fram fór á Íslandi í sumar, náði Valgarð bestum árangri íslensku karlanna og varð í 10. sæti og þar vann hann silfur á stökki og gólfi en að auki lenti hann í 5. sæti á hringjum.  Valgarð vann sér þar með inn þátttökurétt á Heimsmeistaramótinu með frábærri frammistöðu á Evrópumótinu. Valgarð átti stóran þátt í þeim sögulega sigri að vinna til bronsverðlauna með íslenska karlalandsliðinu á Norður Evrópumóti sem fór fram í Finnlandi í lok nóvembermánuði. Valgarð endaði í 6.sæti í fjölþraut og náði hann aftur í tvenn silfurverðlaun, nú á stökki og svifrá. Valgarð keppti einnig til úrslita á tvíslá og gólfi, þar hafnaði hann í 8.sæti og 6.sæti.

Valgarð er fyrirmynd fyrir unga fimleikadrengi í landinu, hann sýnir dugnað og hefur mikinn metnað fyrir því sem hann tekur sér fyrir hendur.

Fimleikakona ársins, jafnar í 2.-3. sæti – Hildur Maja Guðmundsdóttir og Ásta Kristinsdóttir

Hildur Maja Guðmundsdóttir

Hildur Maja Guðmundsdóttir hefur æft fimleika frá unga aldri með Gerplu, Hildur Maja býr á Selfossi og frá 5 ára aldri hefur hún lagt mikið á sig til þess að geta stundað íþróttina sína þar sem að áhaldafimleikar eru ekki iðkaðir á Selfossi, ferðast hún á hverjum degi í bæinn sem sýnir metnaðinn og ástríðuna sem í henni býr. Hildur Maja er á sínu öðru ári í fullorðinsflokki og hún hefur náð að stimpla sig vel inn í landslið Íslands á þeim stutta tíma. Hún hefur verið í landsliðshópnum á öllum þeim stórmótum sem Ísland hefur tekið þátt í síðustu tvö árin og átti hún alveg hreint frábært ár í ár. Hildur Maja varð í 2.sæti í fjölþraut á Íslandsmóti, en hún er einnig ríkjandi Ísalndsmeistari á slá og gólfi. Hildur var lykilmanneskja í Bikarmeistaraliði Gerplu á árinu.  Hildur stóð sig frábærlega á Norðurlandamótinu en þar sótti hún sér silfur á gólfi og átti stóran þátt í að íslenska liðið nældi sér í bronsverðlaun í liðakeppninni en sjálf hafnaði hún í 13.sæti í fjölþraut. Hildur Maja var síðan valin að keppa með landsliði Íslands á Evrópumótinu þar sem hún vann sér inn þátttökurétt á Heimsmeistaramótinu með glæsilegum æfingum.

Hildur er ung en hún hefur ávallt æft af miklu kappi og setur markmiðið hátt. Hildur er öðrum fimleikastúlkum til fyrirmyndar.

Ásta Kristinsdóttir

Ásta Kristinsdóttir keppti á öllum mótum á íslenska tímabilinu með glæsibrag. Keppti hún þar með liði Stjörnunnar og var í sex umferðum á öllum mótum, með hæðsta erfiðleika í stökkum sem sást kvenna megin og sýndi þar glæsilega frammistöðu í gólfæfingum. Ásamt liði síni vann hún Bikar- og Íslandsmeistarartitil vorið 2022 og spilaði hún stóran þátt í þeirri frammistöðu. Framkvæmd Ástu á umferðum sínum voru til fyrirmyndar með minniháttar frádrattum og góðum lendingum. Ásta var einnig lykil manneskja í landsliði Íslands á Evrópumótinu í hópfimleikum í september þar sem hún var ein af sex fimleikakonum á EM sem var valin í úrvalslið Evrópumótsins „All stars“ liðið fyrir frammistöðu sína á á dýnu á mótinu. Ásta er fyrirmyndar afrekskona í fimleikum sem sinnir hlutverki sínu í liðsheildinni vel og leggur mikinn metnað í að ná árangri í íþróttinni. Núna í desember árið 2022 var Ásta valin til þess að taka þátt í alþjóðlegri keppni sem kallast „Face Off“ sem haldin er í Danmörku og Svíþjóð sem kallast Face off. Keppt er í mismunandi þrautum þar sem markmiðið er að lenda stökk með hæðsta erfiðleikan með ákveðinni uppsetningu, var Ásta fyrst kvenna til þess að sigra þá keppni.

Ásta er mikilvæg fyrirmynd fyrir ungar fimleikakonur og hefur hún sýnt miklar framfarir á undanförnum árum þar sem hún hefur gleði og ástríðu fyrir íþróttinni að leiðarljósi. 

Fimleikakarl ársins, 2. sæti – Jónas Ingi Þórisson

Jónas Ingi átti gott keppnistímabil hérlendis sem og erlendis á árinu. Jónas endaði í öðru sæti á Íslandsmóti 2022, þar sem að hann sótti sér einnig brons á hringjum og tvíslá.  Jónas var einn af máttastólpum liðs síns Gerplu, þegar að liðið varði bikarmeistaratitilinn. Jónas var valinn í landsliðið á Norðurlandamóti, Evrópumóti og Norður Evrópumóti á árinu, en var hann einn af fórum Íslenskukeppendunum sem vann sér inn þátttökurétt á Heimsmeistaramótinu sem fór fram í Liverpool. Jónas var 12. í fjölþraut á Norðurlandamótinu og var einnig partur af karlalandsliðinu sem sóttu sér brons á Norður Evrópumótinu en þar hafnaði Jónas í 9.sæti í fjölþraut og keppti hann til úrslita á tveimur áhöldum og var hann ekki langt frá því að næla sér í brons medalíu, þegar hann hafnaði í 4. sæti á gólfi og svo varð hann í 6. sæti á tvíslá.

Jónas Ingi er ungur og efnilegur fimleikamaður sem er mikil fyrirmynd ungra fimleikadrengja. Jónas var meðal annars valinn sem fimleikamaður ársins 2020.

Fimleikakarl ársins, 3. sæti – Martin Bjarni Guðmundsson

Martin Bjarni var einn af lykilmönnum í karlalandsliðinu á árinu, Martin hafnaði í 4. sæti með liðinu á Norðurlandamóti og 3. sæti á Norður Evrópumóti. Martin hafnaði í 13.sæti í fjölþrautarkeppni á Norðurlandamótinu og Norður Evrópumótinu. Martin keppti til úrslita á svifrá á Norður Evrópumótinu árið 2021 og aftur núna árið 2022, þá hafnaði hann í 7.sæti. Norður Evrópumótið var ekki eina mótið sem Martin sýndi framúrskarandi svifráaræfingar, en keppti hann einnig til úrslita á svifrá á Norðurlandamótinu, þar sem hann endaði í 6.sæti. Martin tók þátt í liðakeppni með karlalandsliðinu á Evrópumótinu með flottum árangri. Hann varð bikarmeistari með félagsliðinu sínu, Gerplu og hafnaði hann þriðji í fjölþrautarkeppni á Íslandsmótinu. Þar nældi hann sér einnig í silfur á gólfi og brons á svifrá á Íslandsmótinu.

Martin Bjarni er metnaðarfullur fimleikamaður sem setur markmiðið hátt, hann hefur verið partur af karlalandsliðum Íslands í mörg ár þrátt fyrir ungan aldur. Martin er mikil fyrirmynd ungra fimleikadrengja.

Aðrir sem voru nefndir:

  • Agnes Suto
  • Andrea Sif Pétursdóttir
  • Bryndís Guðnadóttir
  • Guðrún Edda Min Harðardóttir
  • Helgi Laxdal Aðalsteinsson
  • Jón Sigurður Gunnarsson
  • Kolbrún Þöll Þorradóttir
  • Stefán Ísak Stefánsson
  • Tinna Ólafsdóttir
  • Viktor Elí Sturluson

Til hamingju allir!