Stjarnan er Norðurlandameistari unglinga í blönduðum flokki. Átta bestu félagslið Norðulandanna kepptu um titilinn. Stjarnan bar af og sigraði mótið með heilum 2.8 stigum. Liðið vann tvö af þremur áhöldum með frábærum stökkum og neglu lendingum og urðu naumlega í öðru sæti á gólfi. Það er greinilegt að liðið er að toppa á hárréttum tíma og árangurinn gefur góð fyrirheit fyrir Evrópumótið í Baku í haust. Frábær dagur og glæsilegur árangur hjá Stjörnunni.
Dagurinn byrjaði sannarlega frábærlega á Norðurlandamóti unglinga. Sigur Stjörnunnar fer í sögubækurnar þar sem þetta er í fyrsta skipti sem íslenskt lið tekur gullið í blönduðum flokki unglinga. Íslenskt fimleikafólk heldur áfram að toppa sig, sigurinn bætist í gullregn íslenskra keppenda á Norðurlandamótum í apríl mánuði.
Til hamingju Stjarnan og íslenskir fimleikar!
Í stúlknaflokki mættu til leiks Gerpla og Selfoss. Gerpluliðið gerði sér lítið fyrir og lenti í öðru sæti sem er besti árangur Íslands á Norðurlandamóti unglinga síðan 2016 þegar Stjörnustúlkur unnu. Gerpluliðið mætti yfirvegað og öruggt til leiks, lenti stökkin sín og geisluðu á gólfinu. Frábær frammistaða hjá liðinu sem verður gaman að fylgjast með í framtíðinni.
Blandað lið Gerplu og stúlknalið Selfoss kepptu einnig á mótinu og sóttu sér dýrmæta reynslu. Liðin stóðu sig með eindæmum vel og voru sjálfum sér, félagi og landi til sóma.
Úrslit mótsins má finna hér.
Nú fer undirbúningur fyrir EM á fullt, en Norðurlandamótið var frábær reynsla fyrir stóra sviðið í Baku í október.
Við óskum þjálfurum, iðkendum og félögum þeirra til hamingju með árangurinn á Norðurlandamótinu.