Select Page

Evrópumótið í hópfimleikum fer fram í Guimares, Portúgal, dagana 1. – 4. desember. Unglingalandsliðin lögðu af stað á sunnudagsmorgun og fullorðinslandsliðin lögðu af stað í morgun og eru allir komnir á leiðarenda eftir langt og strangt ferðalag.

Líkt og áður hefur komið fram sendir Ísland frá sér tvö lið í fullorðinsflokki; kvennalið og karlalið og tvö lið í unglingaflokki; stúlknalið og blandað lið. Nánar um liðsmenn liðanna má lesa í frétt Fimleikasambandsins hér.

Ferðlagið

Að sögn ferðalanganna gekk ferðalagið vel fyrir sig, þrátt fyrir millilendingu og bið á flugvellinum. Líkaminn á það til að stirðna vel upp á svona ferðalagi, en eins og sést á myndinni hér til hliðar þá dóu menn ekki ráðalausir og var hent í góðar teygjur strax í upphafi ferðar, líkt og sönnum fimleikamönnum sæmir.

Unglingalandsliðin, sem mættu á staðinn í gær, tóku þetta svo skrefi lengra og nærðu líkama og sál í spa-inu í dag.

Fjölmiðlar og dagskrá RÚV

Sannkölluð fimleikaveisla er í vændum fyrir okkur fimleikaáhugafólkið. Helstu íþróttafjölmiðlar voru með í för í morgun og mun RÚV sýna frá mótinu í beinni útsendingu. Hér til hliðar má sjá dagskrá RÚV.

Við mælum því með að fimleikaáhugafólk verði duglegt að kíkja inn á eftirfarandi íþróttasíður:

FSÍ er einnig á staðnum og verður hægt að fylgjast með okkur hér á heimasíðunni, á Facebook og á Instagram.

Dagskrá mótsins

Hvert lið fær eina æfingu fyrir undanúrslit, unglingarnir æfa á þriðjudaginn og fullorðnir á miðvikudaginndaginn. Á miðvikudaginn byrjar svo ballið, unglingarnir keppa til úrslita á þann dag og fullorðnir á fimmtudaginn.

Úrsliti í unglingaflokki eru á föstudaginn, 3. desember:

  • Kl. 16:15 – 17:38: Stúlknalið
  • Kl. 18:30 – 19:54: Blandað lið

Því miður verður þessari keppni ekki sjónvarpað.

Úrslit í fullorðinsflokki eru á laugardaginn, 4. desember:

  • Kl. 14:50 – 16:30: Kvennalið
  • Kl. 17:00 – 18:23: Karlalið

Úrslitin verða í beinni á RÚV.

Við kveðjum í bili en verðum dugleg að senda frá okkur fréttir á okkar miðlum. Við óskum landsliðunum góðs gengis og hvetjum alla landsmenn til að fylgjast vel með og hvetja landsliðin okkar áfram á sínum miðlum. Áfram Ísland!

Hér má sjá smá myndaseríu af ferðalagi fullorðinslandsliðanna.