Á Fimleikaþingi sem haldið var 23. apríl síðastliðinn samþykkti þingsalur tillögu stjórnar og tækninefndar um að keppni í íslenska fimleikastiganum og hópfimleikareglum verði heimil óháð kynjum. Tillöguna má sjá í heild sinni hér fyrir neðan.
Stjórn og tækninefndir leggja til að keppni í íslenska fimleikastiganum/hópfimleikum verði heimil óháð kynjum fram að 14 aldursári. Á 14 aldursári þarf aðildafélag keppanda að óska eftir því að hvert mál fyrir sig verði skoðað af viðeigandi fagnefnd Fimleikasambandsins.
Kynsegin einstaklingar geta keppt í þeim flokki/grein sem þeir samsama sig með og lúta þá þeim reglum sem fylgja flokki/grein. Ekki er í boði að keppa í fleiri en einum flokki/grein á sama móti.
Búningar eru samkvæmt reglum íslenska fimleikastigans/hópfimleikareglum.
Þar sem Alþjóðafimleikasambandið hefur ekki sambærilega heimild í sínum reglum gildir efni þessarar tillögu ekki um þátttöku í landsliði á vegum sambandsins.