Select Page

Tveir af reyndustu alþjóðlegur dómurum Íslands í áhaldafimleikum þau Björn Magnús Tómasson og Hlín Bjarnadóttir hafa verið valin af Alþjóðafimleikasambandinu (FIG) til þess að dæma Ólympíuleikana í París 2024.

Aðeins handfylli dómara fá þann heiður að vera valin til dómgæslu á Ólympíuleikunum, Hlín og Björn hafa unnið hörðum höndum frá Ól 2020 að sýna sig og sanna í dómgæslunni og hafa þau uppskorið dómarasæti á Ól 2024.

Fimmtu Ólympíuleikarnir

Ólympíuleikarnir í París verða þeir fimmtu sem Björn Magnús dæmir, Björn er meðal einstaka dómara í heiminum sem hafa fengið þann heiður að dæma svona marga leika. Björn dæmdi leikana árið 2000 í Sydney, 2004 í Aþenu, 2012 í London, 2020 í Tokýó og verða París eins og fyrr segir hans fimmtu leikar. Árið 2022 var Björn sæmdur tveimur viðurkenningu fyrir óeigingjörn störf í þágu íþróttarinnar af Alþjóðafimleikasambandinu og Evrópska Fimleikasambandinu.

Björn Magnús hefur í áratugi verið sá dómari sem unnið hefur mikla sigra með framgöngu sinni bæði hérlendis sem og erlendis á alþjóðlega sviðinu. Hann hefur staðið sig með svo mikilli prýði í sínum störfum sem dómari á Evrópu- og heimsmeistaramótum að bæði FIG og Evrópska fimleikasambandið hafa valið hann sérstaklega til þátttöku á Ólympíu- og Evrópuleikum. 

Dæmir sína aðra Ólympíuleika í röð

Hlín átti glæstan feril sem afrekskona í íþróttinni og var ein besta fimleikakona landsins um árabil. Eftir að ferlinum lauk, hefur hún verið drifkraftur í faglegu starfi Fimleikasambandsins, sama hvar fæti er drepið niður, hefur Hlín komið að þróun og stefnumótun og haft metnað til að gera enn betur. Hlín er einn færasti alþjóðlegi dómari Íslands í greininni. Hlín var valin ásamt Birni til þess að dæma Ólympíuleikana í Tokýó 2020 og eru Parísarleikarnir því þeir aðrir í röð sem hún er valin til þess að dæma. Hlín er reynslubolti þegar kemur að dómgæslu en hefur hún dæmt á Evrópu-, Heimsmeistara-, Heimsbikar- og öðrum alþjóðlegum mótum, sem og verið valin til þess að dæma Evrópuleika.

Fimleikasamband Íslands er stolt af Birni og Hlín og af þeirra afrekum, um leið og við erum þakklát fyrir þeirra vinnu í þágu íslenskra fimleika.