ÍR mun keppa á Bikarmótinu í stökkfimi sem fer fram á laugardaginn í Gróttu, en ÍR stofnaði fimleika á nýjan leik árið 2014. Þá voru 31 ár síðan fimleikar voru síðast stundaðir hjá ÍR, en fimleikar voru iðkaðir af miklum krafti í ÍR húsinu sem stóð við Túngötuna í Reykjavík, beint á móti Landakoti.
Frjálsíþróttadeild ÍR fóstrar fimleikana, þar sem þeir eru ekki sér deild og hafa ekki starfandi stjórn, en Fríða Rún Þórðardóttir kom inn í stofnun fimleikanna sem foreldri, en ekki síður sem varaformaður frjálsíþróttadeildarinnar á þessum tíma.
Starfið gengur vel
Um 40 iðkendur stunda nú fimleika hjá ÍR og er áhuginn á fimleikum að aukast í Breiðholtinu, þar sem eftirspurn eftir nýju fimleikahúsi er mikil.
Þetta gengur vel, mikið af hindrunum sem við bara vinnum með og fáum dyggann stuðning frá skrifstofu FSÍ, því sjálf er ég ekki uppalin í fimleikum heldur í frjálsum og þekki ekki innviðina og reglurnar nema „learn by dooing and asking„. En ég er með frábæra þjálfara sem hjálpa mér ötullega og það er algerlega ómetanlegt“, segir Fríða Rún.
Markmiðið
Markmið okkar er að byggja ofan á þann góða grunn sem við höfum og styðja við iðkendurna okkar svo að þau haldi áfram og geti verið fyrirmyndir fyrir yngri iðkendur og verði hluti af deildinni sem þjálfarar yngri iðkenda inn í framtíðina. Við viljum mennta okkar þjálfara sem best og að vera með 60 iðkendur þegar við fáum fimleikahúsið okkar. Þá væri gaman að byrja líka með áhaldafimleika og parkour.
Fyrsta mótið
Þrátt fyrir covid, nýlega ráðinn dansþjálfara og aðstöðuna sem ÍR hefur hefur undirbúningur fyrir fyrsta mótið gengið þokkalega vel. Þeir iðkendur sem eru að fara keppa æfa eins og aðrir iðkendur í íþróttasal í Breiðholtsskóla tvisvar í viku og fá að æfa í fimleikasal í Fylki einu sinni í viku.
„Ég myndi segja að við séum búin að vera mjög dugleg og við mætum til að hafa gaman, gera okkar besta og læra að keppa því það er spenningur fyrir því hjá okkur öllum“, segir Fríða Rún.