Þeir Dagur Kári Ólafsson, Jónas Ingi Þórisson og Valgarð Reinhardsson skipuðu landslið Íslands á Heimsbikarmóti í Osijek í Króatíu dagana 10. – 13. apríl. Á mótinu er keppt á einstökum áhöldum og freistuðu okkar menn gæfunnar á að komst í úrslit á sínum sterkustu áhöldum.
Dagur Kári og Jónas Ingi kepptu á fyrsta degi mótsins, Dagur á bogahesti og Jónas á gólfi, klaufaleg mistök hjá þeim báðum urðu til þess að ekki tókst þeim að tryggja sér úrslitasæti að þessu sinni. Á öðrum keppnisdegi kepptu Dagur Kári og Valgarð á tvíslá og svifrá. Tvísláin fór ekki eins og áætlað var og komst hvorugur inn í úrslit. Á svifránni var Dagur Kári með eitt fall en Valgarð kláraði sína seríu vel og er fyrsti varamaður inn í úrslitin á sunnudaginn.
Nýjar reglur í áhaldafimleikum tóku gildi í byrjun árs og margir með nýjar samsetningar á seríum sem tekur tíma að fínpússa. Okkar menn koma heim reynslunni ríkari og tilbúnir í undirbúning fyrir stærri mót á árinu.
Þjálfari liðsins er Róbert Kristmannsson, dómari fyrir Íslands hönd á mótinu er Sigurður Hrafn Pétursson.