Í dag léku íslensku fimleikastúlkurnar stórt hlutverk á EYOF (Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar), þar sem þær Kolbrún Eva Hólmarsdóttir, Sigurrós Ásta Þórisdóttir og Rakel Sara Pétursdóttir kepptu af krafti og glæsileika. Þrátt fyrir nokkra smáhnökra sýndu þær fagmennsku, seiglu og einstaklega sterka liðsheild, og það er óhætt að segja að framtíð íslenskra kvennafimleika sé björt.
Keppnin hófst á tvíslá þar sem allar stúlkurnar sýndu flott flug, flottar handstöður og góðar lendingar. Þar voru þær dæmdar af engri annarri en Sæunni Svanhvít Viggósdóttur, okkar alþjóðlega dómara, sem hafði áður lýst yfir hrifningu sinni á listfengi stúlknanna, á slá og gólfi, þegar hún fylgdist með á Podium æfingu. Sæunn hvatti þær til að „negla“ handstöðurnar í keppni. Þær stóðust þá áskorun með prýði.
Því næst tók við æfing á slá. Þar voru smá hnökrar á slá, eins og gengur og gerist, en æfingarnar voru engu að síður fallegar og með mikla listfengi – stúlkurnar héldu ró sinni og kláruðu af öryggi. Það var greinilegt að þær höfðu lagt mikið upp úr því að ná fram persónulegri tjáningu og flæði í hreyfingum.
Á gólfinu blómstruðu þær í orðsins fyllstu merkingu. Hreyfingar voru útfærðar af mikilli nákvæmni, stökk og hopp með glæsileika og yfirvegun. Sæunn hafði haft rétt fyrir sér – listfengi íslensku stúlknanna er óaðfinnanlegt. Allar skiluðu góðum lendingum, æfingarnar voru lifandi og flæði hreyfinga var til fyrirmyndar.
Keppnisdagurinn endaði svo á stökki þar sem stúlkurnar stóðu sig frábærlega. Engin föll, hæðin í stökkunum til fyrirmyndar og Rakel Sara, sem reyndist stigahæst af hópnum, var hársbreidd frá því að tryggja sér sæti í úrslitum eftir keppni og því var enn smá von – en tvö holl áttu eftir að keppa.
Það munaði einnig litlu að Rakel og Kári kæmust í mixed team úrslit, þar sem þau enduðu í sem fimmtu varamenn. Ef allt hefði gengið upp hjá þeim þá væru þau alveg pottþétt að fara að þreyta sinn þriðja keppnisdag á morgun.
Agnes Suto, landsliðsþjálfari stúlkna var það ánægð með stelpurnar að hún fór beint með þær að borða á þann stað sem þær vildu fara á og splæsti! Um kvöldið fór svo allur hópurinn saman út að borða og áttu góða stund saman.
Það er óhætt að segja að íslensku stúlkurnar hafi staðið sig með miklum sóma, rétt eins og strákarnir í gær. Þær sýndu styrk, liðsheild og jákvæðni – eiginleika sem skipta öllu máli þegar kemur að keppni á þessu stigi. Íslenska fimleikhreyfingin getur svo sannarlega verið stolt af sínu fólki.
Hér eru myndir af þessum mótshluta fyrir áhugasma.
Áfram Ísland – framtíðin er björt!