Select Page

Drengirnir okkar í áhaldafimleikum á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar (EYOF) stigu á keppnisgólfið í dag og stóðu sig með miklum sóma. Þeir sýndu bæði sjálfstraust og samheldni og áttu mjög góðan dag í keppni sem hófst á svifrá og lauk með glæsilegum æfingum á tvíslá.


Strákarnir byrjuðu á svifrá þar sem æfingarnar gengu ágætlega. Kári náði að grípa Kovacs flugæfinguna sína mjög vel, þó svo Kolman hafi ekki tekist sem skyldi. Báðir lentu vel og fóru traustir inn í næstu áhöld.


Í gólfæfingunum voru þeir Kári og Þorsteinn sérstaklega sannfærandi – æfingarnar þeirra einkenndust af flottum stökkum og góðum lendingum. Það var augljóst að þeir höfðu lagt mikið upp úr undirbúningi og voru sannarlega til fyrirmyndar.

Gaman er að segja frá því að Björn Magnús Tómasson, okkar fremsti dómari í áhaldafimleikum karla, dæmdi einmitt gólfæfingar í þessum hluta. Það að eiga fulltrúa bæði í dómgæslu og í keppni undirstrikar enn frekar vöxt og gæði íslensks fimleikasamfélags á alþjóðavettvangi.


Bogahesturinn gekk upp án falls hjá báðum og voru æfingarnar vel útfærðar. Hringirnir gengu einnig prýðilega hjá þeim, þar sem báðir framkvæmdu æfingarnar sínar án vandkvæða.


Á stökki sýndu þeir frábær stökk, þó Þorsteinn hafi óheppilega dottið í lendingu. Það breytti þó ekki heildarmyndinni – bæði stökkin voru vönduð og vel unnin.


Tvísláin reyndist þeim góð – æfingarnar voru sterkar, engin föll og frábærar lendingar. Þeir kláruðu daginn með stæl og sýndu úr hverju þeir eru gerðir.


Þrátt fyrir að koma frá litlu landi stóðu þeir Kári og Þorsteinn sig afar vel í harðri keppni við fimleikamenn frá mörgum af stærstu þjóðum Evrópu. Þeir voru greinilega vel samkeppnishæfir og sýndu að íslenskir fimleikamenn eiga fullt erindi í alþjóðlegar keppnir.


Hróbjartur Pálmar Hilmarsson, landsliðsþjálfari drengja, var hæstánægður með gengi strákana og er spenntur fyrir komandi tímabili.

Við erum rosalega stolt af ykkur – áfram Ísland!