Næstkomandi laugardag fer fram GK-meistaramót í áhaldafimleikum karla og kvenna. Keppt verður í frjálsum æfingum í karlaflokki, kvennaflokki, unglingaflokki karla og kvenna, drengjaflokki og stúlknaflokki. Keppt er í fjölþraut og á einstökum áhöldum, en mótið er það fyrsta á árinu fyrir keppendur í frjálsum æfingum.
Byrjun á skemmtilegu keppnissumri
Það má segja að GK-meistaramótið sé byrjunin á skemmtilegu keppnissumri, en í lok maí mæta keppendur aftur til leiks, en þá á enn stærra sviði, þar sem keppt verður um bikarmeistaratitilinn. Hér má lesa frétt frá Bikarmótinu árið 2021, þar sem barist var kröftuglega um titilinn og að lokum voru það lið Gerplu í áhaldafimleikum karla og lið Björk í áhaldafimleikum kvenna sem stóðu uppi sem sigurvegarar. Hálfum mánuði seinna mæta keppendur aftur á sviðið og keppa um sjálfan Íslandsmeistaratitilinn, þau Valgarð Reinhardsson og Nanna Guðmundsdóttir eiga titil að verja.
Sumarið er óhefðbundið öðrum sumrum, en þegar að keppnistímabilinu líkur hér heima þá tekur við erlent mótatímabil, stefnir Ísland á að eiga fullskipað lið á Norðurlandamóti sem haldið verður á heimavelli dagana 1.- 3. júlí. Norðurlandamótið er ekki eina stóra verkefnið í sumar en Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar (EYOF) og Evrópumót eru einni á dagskrá.
GK-meistaramót fer fram laugardaginn 30. apríl í Ármanni.
Keppni hefst klukkan 11:10 – Miðasala fer fram við inngang.
Facebook viðburður mótsins má finna hér.
Fleiri myndir frá GK – Meistaramótinu 2021 má finna hér.
Fimleikasamband Íslands óskar keppendum góðs gengis og áhorfendum góðrar skemmtunar.