Select Page

Allir meðlimir í úrvalshópum og landsliðshópum Íslands í áhalda- og hópfimleikum hafa nú skrifað undir iðkendasamning Fimleikasambands Íslands.

Í ágústmánuði stóð Fimleikasambandið fyrir æfingabúðum fyrir úrvalshópa í hópfimleikum, þar sem að gestaþjálfarinn Jacob Melin, landsliðsþjálfari karlaliðs Svíþjóðar, stýrði æfingunum. Í beinu framhaldi af æfingunum voru úrvalshópar boðaðir til undirskriftar á iðkendasamningum. Úrvalshópar áhaldafimleika voru svo boðaðir til undirskriftar 8. október, síðastliðinn.

Samningarnir innihalda m.a. siða- og ferðareglur, sem og upplýsingar um hvað það þýðir að vera hluti af úrvalshóp Fimleikasambandsins.

Fimleikasambandið fékk frábær fyrirtæki til liðs við sig og veittum við öllum meðlimum A landsliða gjafapoka með gjafabréfum, tösku, brúsa, Kristal og fullt af öðrum glaðningum, að auki buðum við þeim í Sjóböðin Hvammsvík þegar að undirskriftum var lokið. Mikil ánægja var meðal iðkenda og þökkum við eftirfarandi fyrirtækjum kærlega fyrir stuðninginn; Sjóböðin Hvammsvík, 66° norður, The Body Shop, Craft (New Wave), GK, Hverslun og Ölgerðinni.

Við hjá Fimleikasambandi Íslands erum stolt af þessu skrefi í átt að enn faglegra afreksstarfi.

Hér má finna fleiri myndir frá undirskriftardögunum.