Síðastliðin laugardag fór Fimleikaþing fram í Laugardalshöll. Góð mæting var á þingið sem haldið var með breyttu sniði í ár þar sem félögin höfðu áður samþykkt tillögu stjórnar um að einn fulltrúi frá hverju félagi færi með öll atkvæði félagsins til að mæta þeim sóttvarnarreglum sem gilda í landinu. Vegna þessa var ein nefnd starfrækt á þinginu og verður öðrum nefndarstörfum frestað til 27. nóvember en þá mun framhaldsþing FSÍ fara fram. Sigurbjörg Fjölnisdóttir var kjörin þingforseti, þingritarar voru Eir Andradóttir og Fanney Magnúsdóttir, kjörbréfanefnd skipuðu Sigríður Harðardóttir (formaður), Dóra Sigurjónsdóttir og Olga Bjarnadóttir. Kjörbréf bárust frá 12 félögum og voru alls 104 atkvæði sem félögin fóru með.
Þingstörf
Þingstörf gengu vel fyrir sig, Sólveig Jónsdóttir, framkvæmdastjóri, fór yfir skýrslu stjórnar og Eva Hrund Gunnarsdóttir, fjármálastjóri, fór yfir áritaða reikninga sambandsins.
Skýrsla stjórnar og áritaðir reikningar voru samþykktir samhljóma án athugasemda.
Fjárhagsnefnd var starfrækt á þinginu en líkt og áður kom fram var öðrum nefndumstörfum frestað til 27. nóvember. Hægt er að skoða þau erindi sem eftir er að fjalla um hér.
Atkvæði sem voru borin undir atkvæði á þinginu og fjallað var um í fjárhagsnefnd voru:
- Þingskjal 1, Fjárhagsáætlun 2021-2022
- Þingskjal 2, Starfsáætlun 2021-2022
- Þingskjal 5, Tillaga frá vinnuhópi um koparleyfi krílahópa
Öll erindin voru samþykkt samhljóma án athugasemda.
Nýr formaður FSÍ
Töluverðar breytingar urðu á stjórn FSÍ á þinginu og nýr formaður var kjörinn.
Arnar Ólafsson, formaður sambandsins frá árinu 2014, lét af störfum eftir 9 ára stjórnarsetu. Fimleikasambandið hefur gengið í gegnum stórkostlegar breytingar frá því að Arnar tók sæti í stjórn en áhugasamir lesendur geta lesið um það í Ársskýrslu 2020.
Jafnframt létu af störfum þær Hulda Árnadóttir, Harpa Þorláksdóttir og Kristín Ívarsdóttir. Við þökkum þeim öllum kærlega fyrir samstarfið síðustu ár. Einnig viljum við þakka þeim starfsmönnum sem létu af störfum á árinu kærlega fyrir þeirra störf en það eru þær Halla Kari Hjaltested og Sæunn S. Viggósdóttir.
Kristinn Arason, varaformaður sambandsins, tók við sem nýr formaður FSÍ en Kristinn hefur setið í stjórn sambandsins frá árinu 2014.
Marta Sigurjónsdóttir og Þór Ólafsson halda áfram í stjórn en þrjú framboð bárust til stjórnar FSÍ til tveggja ára og voru þau Axel Þór Eysteinsson, Halldóra Sigríður Guðvarðardóttir og Magnús Heimir Jónasson kosin til tveggja ára. Eitt framboð barst til stjórnar FSÍ til eins árs og var Sigurbjörg Fjölnisdóttir kosin til eins árs. Jarþrúður Hanna Jóhannsdóttir bauð sig áfram fram í varastjórn.
Stjórn Fimleikasambandsins: Kristinn Arason (formaður), Axel Þór Eysteinsson, Halldóra Sigríður Guðvarðardóttir, Magnús Heimir Jónasson, Marta Sigurjónsdóttir, Sigurbjörg Fjölnisdóttir og Þór Ólafsson.
Varastjórn Fimleikasambandsins: Guðbjörg Snorradóttir og Jarþrúður Hanna Jóhannsdóttir.
Við bjóðum nýja stjórn hjartanlega velkomna til starfa og hlökkum til samstarfsins.
Innleiðing á nýju fræðslukerfi
Helga Svana Ólafsdóttir, fræðslustjóri, kynnti nýtt fræðslukerfi.
Undirbúningsvinna hófst af fullum þunga vorið 2020 ásamt fræðslunefnd og hópi góðs fólks sem unnið hefur námsefnið. Áætlað er að nýtt kerfi verði tekið í notkun nú í september.
Ákveðið var að fylgja ÍSÍ, sem er að taka upp Canvas, sem er kerfi sem að háskólanir eru að nota auk nokkurra framhaldsskóla. Með því að vera með sama kerfi þá verður eftirfylgni og aðhald við nemendur mun auðveldara.
Það er til mjög mikið af góðu námsefni sem við höfum notað í gegnum árin og var það endurskoðað og uppfært þar sem þurfti. Upptökur á fyrirlestrum hafa gengið vel og vinna við að setja þá upp í Canvas hefst núna í september. Við erum mjög spennt fyrir því að nýtt fræðslukerfi líti loksins dagsins ljós.
Samskiptaráðgjafi íþróttahreyfingarinnar
Sigurbjörg Sigurpálsdóttir, samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs, tók til máls og sagði frá sínu starfi. Starfið kom til vegna laga, sem sett voru á Alþingi af mennta- og menningamálaráðuneytinu, haustið 2019.
Markmið laganna er að Íþrótta- og æskulýðsstarf fari fram í öruggu umhverfi, þar sem að allir eiga að geta leitað aðstoðar vegna atvika eða misgerða sem eiga sér stað án þess að þurfa að óttast afleiðingarnar.
Hennar starf er að bæta umgjörð samtaka og félaga sem falla undir verksviðið, í samráði við þau ásamt því að stuðla að öryggi þeira sem taka þátt í starfi þessara samtaka og félaga.
Erindi Sigurbjargar var mjög þarft í kjölfar þeirra umræðna sem hafa átt sér stað í samfélaginu síðustu vikurnar og þökkum við henni fyrir að koma og kynna fimleikahreyfingunni fyrir hennar starfi.
Ávarp stjórnarmanns ÍSÍ
Hafsteinn Pálsson, varaforseti ÍSÍ, var gestur þingsins og ávarpaði þingheim. Hafsteinn óskaði Fimleikasambandinu til hamingju með glæsilegt starf og var ánægður með erindi Sigurbjargar. Hann sagði það vera stórt skref sem stigið var og mikil vinna hjá ÍSÍ að koma þessu starfi á laggirnar í góðu samstarfi við menntamálaráðuneytið. Hafsteinn spurði þingheim:
Hvaða boðorð ætlum við að halda, það er ekki flóknara en það.
Hafsteinn kvaðst ánægður með að náðst hafi að halda ákveðnu starfi á síðasta ári, þó það hafi verið með öðru sniði en erfitt væri að reka starf þegar samkomutakmarkanir eru með þeim hætti sem við bjuggum við á árinu. Hann kvaðst bjartsýnn með framhaldið og óskaði þess að við myndum sleppa nokkurn veginn ósködduð heilsufarslega séð frá þessu.
Hafsteinn minnti á Getspá og Getraunir, að við þurfum að standa vörð um þessi fyrirtæki okkar. Fjármunir frá þeim skipti miklu máli í rekstrartekjum sambandanna.
Að lokum flutti Hafsteinn þingheimi kveðju Lárusar Blöndal (forseta ÍSÍ), framkvæmdastjóra, stjórnar og starfsfólks ÍSÍ.
Vinnuhópur um afreksmál
Bergþóra Kristín Ingvarsdóttir kynnti störf vinnuhóps um afreksmál en hópurinn aflaði upplýsingum um æfingarálag, snemmtæka sérhæfingu og brottfall úr fimleikum og unnu skýrslu út frá þeim upplýsingum.
Erindi Bergþóru vakti mikinn áhuga þingheims og sköpuðust miklar umræður um niðurstöðu hópsins og var mikill áhugi um að halda þessari vinnu áfram.
Fimleikasambandið þakkar öllum fulltrúum félaga fyrir komuna á þingið sem og þingforseta og þingriturum fyrir sín störf. Fleiri myndir frá þinginu má finna hér.