Select Page

Á sunnudaginn lauk Evrópumótinu í áhaldafimleikum. Þá keppti Jónas Ingi Þórisson í úrslitum á stökki. Jónas Ingi var 7. maður inn í úrslitin með einkunnina 13,316 úr báðum stökkunum. Í úrslitunum stóð Jónas Ingi sig vel, var með einkunnina 13,366 úr báðum stökkunum og endaði einnig í 7. sæti.

Eins og áður hefur komið fram, sendi Ísland tvo keppendur á mótið í ár. Valgarð Reinhardsson keppti í fullorðinsflokki á mótinu og Jónas Ingi í unglingaflokki. Árangur Íslands á mótinu er sögulegur, en aldrei áður í sögunni hefur keppandi í unglingaflokki frá Íslandi komist í úrslit á Evrópumóti, hvorki í fjölþraut né einstökum áhöldum og það tókst Jónasi Inga bæði. Valgarð stóð sig einnig stórvel á mótinu. Ekki var keppt í fjölþraut í fullorðinsflokki og einbeitti Valgarð sér því að sínum bestu áhöldum, keppti á gólfi, stökki og á svifrá. Stökkið gekk feikilega vel hjá Valgarði og var hann fyrsti varamaður inn í úrslitin með minnsta mögulega mun, en hann og síðasti maður inn voru jafnir, með sömu einkunn. Í tilfelli jafnteflis er litið til þess hvor er með hærri framkvæmdareinkunn, en tékkneski fimleikamaðurinn sem var jafn Valgarði var með örlítið hærri framkvæmdareinkunn sem varð til þess að Valgarð komst ekki í úrslit.

Bæði Valgarð og Jónas Ingi höfðu ekki keppt í fimleikum síðan í febrúar 2020 vegna Covid-19 faraldursins. Það var einstaklega ánægjulegt að sjá árangur þeirra á mótinu og hversu sterkir þeir eru þrátt fyrir höft á æfingum á árinu.

Nánast ekkert hefur verið keppt á alþjóðavísu á árinu og fengu fimleikaþyrstir aðdáendur loksins að sjá glæsileg tilþrif í Mersin. Faraldurinn setti þó svip sinn á mótið, ekki var jafn góð þátttaka og er alla jafna á Evrópumóti í áhaldafimleikum og undir eðlilegum kringumstæðum hefðu fleiri fimleikamenn frá Íslandi tekið þátt. Sóttvarnir voru í hávegum hafðar og allir félagslegir viðburðir sem alla jafna eru á Evrópumótum voru ekki haldnir. Enginn samgangur var á milli þjóða og var hver og ein þjóð einangruð frá öðrum þjóðum og öðrum sem að mótinu komu.

Keppni á Evrópumótinu í áhaldafimleikum kvenna hefst á morgun, fimmtudaginn 17. desember. Beint streymi er frá mótinu á síðunni gymtv.online ásamt úrslitum og svo verða úrsltiin í liðakeppninni og á einstökum áhöldum sýnd á RÚV um helgina. Ekki eru keppendur frá Íslandi á mótinu, þrátt fyrir að Ísland eigi glæsilega fulltrúa í áhaldafimleikum kvenna. Ákvörðun um að taka ekki þátt var tekin af landsliðsþjálfara í samráði við fimleikakonurnar.

Stutt er nú í næsta Evrópumót, en það verður haldið í Basel í Sviss í apríl 2021. Íslenskt fimleikafólk er byrjað að undirbúa sig fyrir mótið og verður spennandi að fylgjast með þeim í undirbúningnum. Vonast er til að senda fleiri keppendur á mótið og í bæði áhaldafimleikum karla og kvenna.

Að lokum er mynband með stökkunum hans Jónas Inga frá því í úrslitunum og viðtal við bæði hann og Róbert Kristmannsson, landsliðsþjálfara.

Framtíðin er björt í íslenskum fimleikum!