Select Page

Dagana 17. – 20. maí fór fram endurmenntunarnámskeið á vegum Fimleikasambandsins. Kennari á námskeiðinu var Oliver Bay. Oliver er menntaður styrktarþjálfari og er landsliðsþjálfari Dana í power tumbling. Áhersla námskeiðisins var því dýnustökk og styrktarþjálfun tengd dýnu. Námskeiðið var ætlað öllum sem hafa áhuga (óháð fimleikagrein og leyfi í leyfiskerfi FSÍ). Í heildina var námskeiðið 16 klukkustundir, bæði verklegt og bóklegt og samanstóð af fyrirlestrum og verklegum hlutum. Dagskránna af námskeiðinu má sjá hér.

Þetta var fyrsta endurmenntunarnámskeið sem Fimleikasambandið heldur, en þjálfarar þurfa að skila samtals 12 endurmenntunartímum yfir þriggja ára tímabil, hyggist þeir halda gullleyfi sínu hjá FSÍ. Á námskeiðinu mátti notast við hluta úr námskeiðinu til að telja upp í þessa 12 tíma, og því var ekki nauðsynlegt að mæta á alla hluta námskeiðisins. Sjá má meira um endurmenntun hér.

Á námskeiðið mættu 26 þjálfarar úr 7 félögum ásamt landsliðsþjálfurum og yfirþjálfurum landsliða. Þjálfarar komu frá; Fimleikafélagi Akraness, Hetti, Íþróttafélaginu Gerplu, Íþróttafélaginu Gróttu, Íþróttafélagi Reykjavíkur, Ungmannafélaginu Fjölni og Ungmannafélaginu Stjörnunni.

Námskeiðið var fléttað saman við úrvalshópaæfingar unglinga og fullorðinna, en fullorðnir fengu 2 æfingar á mann og unglingar 1 æfingu á mann með Oliver. Dagskrá og iðkendur í úrvalshóp fullorðinna má sjá hér. Dagskrá og iðkendur í úrvalshóp unglinga má sjá hér. Æfingarnar voru hluti af þjálfaranámskeiðinu, en þjálfarar fylgdust með og tóku þátt í æfingunum.

Námskeiðið fékk góðar móttökur og allir lærðu eitthvað og fengu góða upprifjun til þess að taka með sér heim í sitt félag, en markmiðið var að auka þekkingu í félögunum til þess að auka gæði í fimleikum á Íslandi.

Verið er að semja nýjar gólfæfingar fyrir kvennalið. Stefnt er að því að klára gólfæfingarnar á þessu ári og senda út handrit af þeim fyrir úrvalshóp í lok árs. Æfingar fara fram í vikunni, dagana 22.-25. maí, þar sem Hrefna Þorbjörg Hákonardóttir stýrir æfingum.

Næsta námskeið í endurmenntun í hópfimleikum verður haldið dagana 24.-27. ágúst næstkomandi. Þar verður Jacob Melin gestakennari og tekur fyrir stökk á trampólíni. Verið er að vinna að því að klára dagskrána, en þær upplýsingar sem eru má finna hér. Skráning er opin í þjónustugátt.