Select Page

Helgi Laxdal Aðalgeirsson, fimleikakarl ársins 2021 segir karlalandsliðið í hópfimleikum sem keppti á Evrópumótinu í Portúgal eitt samheldnasta lið sem hann hefur verið í. Gott gengi liðsins á EM stimplaði okkar stráka inn á meðal þeirra bestu í heiminum. Helgi kom í heimsókn til okkar á dögunum og svaraði nokkrum spurningum.

Hvenær byrjaðir þú í fimleikum?

Ég byrjaði að æfa fimleika 5 ára, eða ég byrjaði að labba á höndum þriggja ára og þá var gefið að ég færi í fimleika.

Hvernig verður maður svona góður í fimleikum?

Það er mikilvægt að njóta og hafa gaman í íþróttinni, hafa metnað og markmið en númer eitt tvö og þrjú er að hafa gaman af þessari íþrótt.

Helgi framkvæmdi fyrstur karla á Evrópumóti framumferð á dýnu sem samanstendur af heilli skrúfu, kraftstökki og tvöföldu heljarstökki með beinum líkama og tveimur og hálfri skrúfu. Flestum finnst þetta lokastökk erfitt á trampólíni en Helgi gerir sér lítið fyrir og framkvæmir þetta á dýnu með góðum árangri.

Hvað hefur þú æft þetta stökk lengi?

Ég hef æft þetta nokkuð lengi og finnst mjög skemmtilegt að gera heila skrúfu inn í kraftstökkið. Þjálfararnir mínir sögðu hins vegar að ég fengi meiri kraft úr því að gera pike í byrjun. Það var svo einhver sem keppti með það, pike-kraftstökk-tvöfalt með tveimur og hálfri, þannig að ég ákvað að bæta skrúfunni fyrir framan og vera fyrstur til að gera það og það gekk bara upp.

Hvað er draumastökkið?

Það var stökkið sem ég geri á dýnu þannig að ég þarf að finna mér eitthvað nýtt. Mig langar að gera á hesti yfirslag tvöfalt með einni og hálfri skrúfu og ef ég geri það með beinum líkama þá væri það klikkað.

Nú varstu að keppa á þínu fjórða Evrópumóti, er eitthvað mót eftirminnilegra en önnur?

Þau eru öll svo rosalega ólík. 2014 var ég í fyrsta drengjaliðinu sem Ísland hefur sent á EM og þar var svakalega gaman að sjá öll hin liðin og við lærðum rosalega mikið af því móti. Við vissum að við værum ekki bestir en það var ógeðslega gaman og ég naut þess svo mikið að keppa. 2016 var ég í blönduðu liði unglinga, það var mjög skemmtilegt líka, við vorum orðin miklu betri þar sem við sáum 2014 hvaða stökk hinir voru að gera og fórum heim með markmið að auka erfiðleikann. Það sem stendur upp úr 2016 er að við urðum Evrópumeistarar á gólfi, við vorum búin að sjá hvaða einkunn við þyrftum og höfðum enga trú á okkur. Þegar einkunnin byrtist missum við okkur alveg, það heyrðist örugglega hærra í okkur en liðinu sem vann. Ég var í blönduðu liði fullorðinna 2018 og það er eiginlega uppáhalds mótið mitt persónulega, mér gekk best þar. Ég keppti í öllum umferðum bæði í undanúrslitum og úrslitum og gekk rosalega vel. Liðið var líka eiginlega besta lið sem ég hef verið í svakalega flottur og samstilltur hópur. Svo núna 2021 karlalið í fyrsta skipti síðan 2010 og það stendur upp úr…eða eiginlega bara öll þessi mót, ég elska að keppa á Evrópumótum.

Hvað gerir þú fyrir utan fimleikana?

Haha, ég er að þjálfa fimleika þannig að ég bjó í Stjörnunni á þessu ári, var að þjálfa og æfa þar og var mjög mikið í fimleikasalnum sem ég elska. Svo er ég barþjónn á Pedersen svítunni í aukavinnu.

Hver er fyrirmyndin þín?

Það er í rauninni engin einn sem ég get nefnt, en allir sem hafa þjálfað mig og krakkarnir sem ég hef æft með hafa mótað mig sem manneskju.

Hvað stendur upp úr á árinu?

Það er þetta fimleikamót (Evrópumótið), sérstaklega að ég hafi verið valin í úrvalslið mótsins það stendur upp úr og að stelpurnar hafi unnið Evrópumótið.

Hvað er framhaldið?

Það er annað Evrópumót eftir níu mánuði og ég stefni á að fara þangað og gera enn betur.

Við óskum Helga til hamingju og hlökkum til að fylgjast með honum á nýju ári.

#fimleikarfyriralla #áframísland