Select Page

Björn Magnús hefur verið einn af allra bestu dómurum Íslands undanfarin ár, en hann var á dögunum sæmdur heiðursviðurkenningum frá bæði Alþjóða fimleikasambandinu (FIG) og var sú viðurkenning afhend á meðal fimleikafjölskyldunnar, á Norðurlandamótinu í áhaldafimleikum sem fram fór í júlí síðastliðnum á Íslandi. Á Evrópumótinu sem fram fór í ágúst í München, heiðraði Evrópska sambandið hann fyrir sín miklu og óeigingjörnu störf í þágu íþróttarinnar.

Björn Magnús hefur í áratugi verið sá dómari sem unnið hefur mikla sigra með framgöngu sinni bæði hérlendis sem og erlendis á alþjóðlega sviðinu. Hann hefur staðið sig með svo mikilli prýði í sínum störfum sem dómari á Evrópu- og heimsmeistaramótum að bæði FIG og Evrópska fimleikasambandið hafa valið hann sérstaklega til þátttöku á Ólympíu- og Evrópuleikum. 

Björn hefur nú dæmt fjóra Ólympíuleika og tvenna Evrópuleika og hafði þetta um dómaraferill sinn að segja:

Ég hef dæmt mörg mót á löngum ferli sem spannar 30 ár og en á erfitt að gera upp eitthvað sérstakt mót en mörg eru eftirminnileg. Ætli mér hafi ekki fundist skemmtilegast að dæma Alexei Nemov, hann var tignarlegur og flottur og hafði alltaf salinn með sér. Ég hef alltaf undirbúið mig fyrir öll mót með því að sitja podium æfingar og dæma og fylgjast með. Í seinni tíð hef ég notað youtube líka.

Björn og Hlín á HM í Liverpool

Björn er ennþá á fullu í dómgæslunni og heldur, ásamt Hlín Bjarnadóttur, út til Liverpool á Heimsmeistaramót, í vikunni þar sem hann heldur áfram að láta til sín taka á stóra sviðinu í áhaldafimleikum.

Fimleikasamband Íslands er stolt af Birni og hans afrekum, um leið og við erum þakklát fyrir alla hans vinnu í þágu íslenskra fimleika.