Kvennalandsliðið í hópfimleikum var valið lið ársins 2021 af Samtökum íþróttafréttamanna. Liðið hreppir titilinn fyrir gott gengi á Evrópumótinu í byrjun desember þar sem liðið tryggði sér fyrsta sæti eftir harða keppni við Svíþjóð.
Liðið fór ekki leynt með markmið sín og var stefnan sett á gullið strax í upphafi æfingatímabilsins. Eftir að hafa verið í öðru sæti síðustu þrjú Evrópumót var einstaklega sætt að horfa á liðið loksins ná titlinum til baka, en Ísland hefur tvisvar sinnum áður unnið titilinn í kvennaflokki, árið 2010 og 2012.
Karen Sif Viktorsdóttir einn þjálfari liðsins segir að liðsheild hafi einkennt liðið, allar ýttu stelpurnar hvor annarri áfram og voru mjög samstilltar og metnaðargjarnar. Jákvæðni skein af liðinu, þær voru samviskusamar og æfðu vel sem skilar þessum glæsilega árangri.
Þjálfarar liðsins voru, Ásta Þyrí Emilsdóttir, Daði Snær Pálsson, Karen Sif Viktorsdóttir og Þorgeir Ívarsson.
Andea Sif Pétursdóttir, fyrirliði liðsins tekur í sama streng og Karen Sif.
Það sem einkenndi liðið var góð liðsheild, við vorum allar mjög samstilltar og þetta verkefni var í forgangi hjá öllum í liðinu. Það var svakalega góður mórall og við vorum duglegar að hvetja hvor aðra.
Liðið samanstendur af tólf fimleikadrottningum og fjórum þjálfurum, innan liðsins var ekki mikil fjölbreytni í nöfnum en í liðinu voru tvær sem báru nöfnin Andrea, Ásta, Kolbrún og Tinna. Það fylgdi ekki sögunni hvort upp hefði komið mikill ruglingur með nöfnin en þetta truflaði að minnsta kosti ekki árangurinn.
Kolbrún Þöll Þorradóttir, fimleikakona ársins varð í öðru sæti í vali á íþróttamanni ársins, aðeins hársbreidd frá fyrsta sætinu. Þetta er besti árangur sem fimleikamaður hefur náð í kjöri íþróttamanns ársins og óskum við henni innilega til hamingju með þennan árangur. Kolbrún Þöll var viðstödd í sjónvarpssal og tók við viðurkenningu liðs ársins fyrir hönd liðsfélaga sinna.
Við óskum Kvennalandsliðinu innilega til hamingju með titilinn „lið ársins“ og Kolbrúnu Þöll með annað sætið.