Select Page

Samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs, Sigubjörg Sigurpálsdóttir, greindi frá því á Fimleikaþingi sem fram fór síðustu helgi að hann hefði fengið 24 mál til skoðunar á síðasta ári. Þar af hefðu 8 mál lotið að tilkynningum um kynferðislegt áreiti eða kynferðislegt ofbeldi. Í 11 af málunum hafi börn átt í hlut. Þá hafi 18 af málunum átt uppruna sinn á höfuðborgarsvæðinu, 6 á landsbyggðinni.

Lög um samskiptaráðgjafa tóku gildi í ágúst 2019, samskiptaráðgjafi heyrir undir Mennta- og menningarmálaráðherra. Sigurbjörg Sigurpálsdóttir, sálfræðingur, var ráðin í starfið og hóf störf um mitt ár 2020. Markmið laganna og hlutverk samskiptaráðgjafa er að íþrótta- og æskulýðsstarf fari fram í öruggu umhverfi. Undir embættið falla mál sem snúa að einelti, ofbeldi, kynbundnu áreiti og kynferðislegri áreitni. Megintilgangur embættisins er að miðla upplýsingum um atvik er falla undir lögin, auka þekkingu, stuðla að réttum viðbrögðum og aðstoða íþróttafélög og einstaklinga sem leita til samskiptaráðgjafa. Þannig verði mál sem falla undir lögin ekki rannsökuð innan félags, eins og raunin hefur oft verið, heldur vísað til hlutlauss aðila.

Viðbragðsáætlanir

Sigurbjörg sagði að búið væri að stofna vinnuhóp allra í íþrótta- og æskulýðshreyfingunni sem ætti að útbúa viðbragðsáætlanir sem íþróttafélög og samtök í íþrótta- og æskulýðsstarfi geta nýtt sér. Mikilvægt væri að huga ekki einungis að öruggu umhverfi íþrótta- og æskulýðsstarfs, heldur einnig að góðri framkomu og fyrirmyndum utan vallar. Ábyrgð foreldra þar væri rík, en íþróttafélögin og skólarnir gegndu einnig mikilvægu hlutverki. Í því sambandi ætti að horfa til þeirra gilda sem íþróttafélögin standa fyrir og leita leiða til að láta gildin endurspeglast í starfi félaganna og framkomu iðkenda og starfsmanna.

Fimleikasamband Íslands fagnar þeirri vinnu sem farin er af stað um viðbragðsáætlanir tengdar kynferðislegu áreiti og ofbeldi innan íþróttahreyfingarinnar. Samskiptaráðgjafi sagði Fimleikasambandið hafa staðið sig vel í þessum málum, en mikilvægt væri að sofna aldrei á verðinum.

Við erum með fullt af góðri fræðslu og er mikið búið að gerast innan íþrótta- og æskulýðshreyfingarinnar. Fræðsludagur FSÍ sem var nefndur hérna áðan, ég hef séð þessa fyrirlestra og þetta er bara virkilega flott, þannig að Fimleikasambandið má alveg heyra það – þið hafið staðið ykkur vel hvað þetta varðar.

Glærur samskiptaráðgjafa frá Fimleikaþingi 2021 er að finna hér: