Allir strákar sem hafa áhuga á að verða sterkir, hoppa á trampólíni og að læra ný trix eru velkomnir að koma og æfa með okkur að kostnaðarlausu.
Ef þú æfir fimleika nú þegar er þér líka boðið og þá getur þú tekið vini þína með og leyft þeim að prófa. Æfingar verða haldnar á mismunandi stöðum á landinu yfir árið og stendur öllum drengjum fæddum 2006-2012 til boða. Ekki þarf að skrá sig á æfinguna, heldur er nóg að mæta og taka þátt. Á æfinguna mætir hluti karlalandsliðsins í hópfimleikum sem munu aðstoða strákana og sýna þeim nokkur fimleikatrix í lok æfingar.
Næsta æfing verður haldin 1. apríl, kl. 12:00-15:00 í fimleikadeild Aftureldingar, Íþróttamiðstöðinni Varmá. Ekki þarf að skrá sig á æfinguna, heldur er nóg að mæta og taka þátt.
Fimleikasambandið hóf þetta verkefni á síðasta ári, en verkefnið er hluti af Hæfileikamótun sambandsins og sjá landsliðsþjálfararnir Magnús Óli Sigurðsson og Alexander Sigurðsson um framkvæmd þess í ár. Markmið verkefnisins er að auka þátttöku drengja í íþróttinni og var mikil ánægja var með æfingarnar í fyrra en að meðaltali mættu um 60 strákar á hverja æfingu, þar sem margir tóku sín fyrstu skref í fimleikum.
Við hvetjum ykkur til að auglýsa æfingarnar fyrir alla í ykkar félagi. Ef bærinn ykkar eða sveitafélagið er með facebook síðu eða heimasíðu, þætti okkur einnig ótrúlega vænt um að þið mynduð auglýsa æfinguna þar, til að allir strákar fái tækifæri til að prófa íþróttina okkar.
Á instagram síðu Fimleikasambandsins: icelandic_gymnastics má finna myndbönd og myndir af karlalandsliðinu af æfingum frá því í fyrra ásamt myndum og myndböndum úr Fimleikahringnum 2020.
Hér má sjá myndband af æfingu frá því í fyrra:
Hér má sjá kynningarmyndband um verkefnið:
Við hlökkum til að sjá sem flesta!