Valgarð Reinhardsson og Jónas Ingi Þórisson hafa lokið keppni á HM í Liverpool, þeir tóku þátt í undankeppni hluta eitt í morgun.
Jónas Ingi átti mjög góðan dag og fór hann í gegnum mótið án stórra mistaka, smá hnökrar á bogahesti settu strik í reikninginn en að því undanskyldu átti hann heilt yfir frábæran dag. Jónas endaði með 72.298 stig en hans besti árangur í dag var á stökki þar sem að hann skoraði 13.500 stig.
Valgarð átti fínann dag í dag, kláraði hann mótið vel með nokkrum smávægilegum mistökum. Besti árangur hans var einnig á stökkinu en þar náði hann í 13.533 stig. Valgarð endaði með 71.998 stig í fjölþraut.
Komið að heimferð
Þá er komið að lokum hjá Íslensku landsliðunum hér á HM í Liverpool, þær Hildur Maja og Thelma ferðast aftur heim til Íslands í dag og þeir Valgarð og Jónas fara svo heim á morgun. Þau Hlín Bjarnadóttir og Björn Magnús Tómasson halda áfram að standa vaktina næstu vikuna við dómarastörf hér í Liverpool.
Fimleikasambandið óskar þeim Valgarð, Jónas, Hildi Maju og Thelmu innilega til hamingju með árangurinn.
Fimleikasambandið vill þakka þeim Ferenc Kováts, Róberti Kristmannssyni, Elísabetu Birgisdóttur, Hlín Bjarnadóttur og Birni Magnúsi Tómassyni fyrir stuðninginn hér í Liverpool. Að auki þá þökkum við þeim stuðningsmönnum sem lögðu sér leiðina alla leið til Liverpool til þess að styðja íslensku keppendurnar, sem og stuðningsmönnunum heima fyrir stuðninginn, hann er ómetanlegur.
Myndasíða
Við minnum á að myndir frá mótinu má finna á myndasíðu Fimleikasambands Íslands.