Rétt í þessu lauk úrslitadegi Norðurlandamóts unglinga í áhaldafimleikum. Alls kepptu 10 íslenskir keppendur til úrslita á einstökum áhöldum, mikil stemning var í salnum þegar að íslensku keppendurnir sýndu seríurnar sínar í dag. Íslensku keppendurnir hafa þá lokið keppni á Norðurlandamóti unglinga að þessu sinni og fara þau heim reynslunni ríkari.
Tvö silfur og eitt gull!
Þrír íslenskir keppendur fara heim með verðlaunapening, en niðurstaða dagsins var eitt gull og tvö silfur. Auður Anna Þorbjarnadóttir sýndi tvö glæsileg stökk sem skiluðu henni silfri á stökki í dag aðeins 0.05 frá gullinu. Kári Pálmason keppti til úrslita á öllum áhöldum í dag og átti hann nánast hnökralaust mót, skilaði það honum Norðurlandameistaratitlinum í youth keppni (U14 ára) á svifrá og silfri á stökki. Kári hafnaði í 6. sæti á gólfi, 4. sæti á bogahesti, 4. sæti á hringjum og 4. sæti á tvíslá.
Úrslit unglinga í áhaldafimleikum kvenna
- Lilja Katrín Gunnarsdóttir – 5. sæti á slá
- Kristjana Ósk Ólafsdóttir – 4. sæti á gólfi
Úrslit unglinga í áhaldafimleikum karla
- Lúkas Ari Ragnarsson – 6. sæti á gólfi og 5. sæti á hringjum
- Davíð Goði Jóhannsson – 6. sæti á stökki
- Stefán Máni Kárason – 6. sæti á tvíslá
Youth drengir (U14)
- Daníel Theodór Glastonbury – 8. sæti á hringjum og 7. sæti á tvíslá
- Ásgeir Smári Ásgeirsson – 8. sæti á stökki
- Davíð Þór Bjarnason – 7. sæti á svifrá
Fimleikasamband Íslands óskar keppendum, þjálfurum og félögum innilega til hamingju með frábæran dag!