Select Page

Æfingadagurinn á Evrópumótinu í hópfimleikum hjá A-landsliðunum fór fram í Azerbaijan í dag. Kvennalandslið Íslands byrjaði daginn ótrúlega vel og stemmingin í liðinu var mjög góð. Blandaða liðið átti einnig góðan dag og eru tilbúin fyrir undanúrslitin á morgun. Það er mikill hugur í báðum liðunum og spennan er mikil fyrir morgundeginum, þar sem sex bestu liðin tryggja sér sæti í úrslitum á laugardaginn.  

“Það var gaman hjá okkur í dag, gekk allt eftir plani, erum rosa sáttar með daginn og bíðum spenntar eftir morgundeginum” -Bryndís Guðnadóttir í kvennaliðinu 

“Við erum ótrúlega sáttar eftir daginn og erum vel stemmdar fyrir undanúrslitum á morgun” -Ingunn Ragnarsdóttir í kvennaliðinu 

“Æfingin í dag gekk alveg eins og við vildum og við erum sjúklega spennt að sýna ykkur á morgun vinnuna sem við erum búin að vinna sem lið” – Telma Ösp Jónsdóttir í blandaða liðinu  

“Æfingin í dag gekk frábærlega, það gerðu allir sín stökk vel og við vorum fljót að venjast nýju áhöldunum. Erum ótrúlega spennt og tilbúin að gefa allt í þetta á morgun!“ -Magnús Indriði Benediktsson í blandaða liðinu 

“Æfingin gekk vel, stóðum okkur vel og vitum hvað við eigum að laga, við ætlum að standa okkur enn betur á morgun! Núna þekkjum við áhöldin og vitum hvað við eigum að gera” – Helgi Laxdal í blandaða liðinu 

Undanúrslit U18 landsliðanna, blandaða liðið efst inn í úrslit! 

Undanúrslit U18 landsliða fór einnig fram í dag, þar sem Ísland átti lið í öllum flokkum. Drengjaliðið var fyrsta liðið til að stíga á keppnisgólfið og byrjaði mótið með smá hnökrum á dýnunni en strákarnir komu sterkir tilbaka á trampolíninu. Eftir flottar gólfæfingar enduðu drengirnir í 5. sæti með 39,925 stig. 

Á eftir drengjaliðinu byrjaði undankeppnin í blönduðum flokki. Blandaða liðið var í bana stuði og átti frábæran dag á öllum áhöldum en eiga samt inni fyrir úrslitin á föstudaginn. Liðið var efst inní úrslit með 50,600 stig, sem er sögulegur árangur, þar sem Ísland hefur aldrei unnið undanúrslitin í blönduðum flokki U18, sem gerir góð fyrirheit fyrir úrslitin. 

Stúlkurnar kepptu á eftir blandaða liðinu og byrjuðu mótið á glæsilegum gólfæfingum. Stelpurnar lentu 17/18 stökkum á dýnunni og áttu einnig flottan dag á trampolíninu. Liðið endaði í 3. sæti með 48,950 stig eftir mjög harða keppni, það verður því spennandi að fylgjast með þeim í úrslitum á föstudaginn.  

Myndasíða frá æfingadeginum er á heimasíðu Fimleikasambandsins. 

Streymi og einkunnir 

Evrópska Fimleikasambandið verður með beint streymi frá mótinu og hér má fylgjast með einkunnum mótsins. 

Úrslit fullorðins flokka verður einnig sýnd á Rúv og Rúv 2 laugardaginn 19. október 

ÁFRAM ÍSLAND!