Select Page

Magnús Óli Sigurðsson, Alexander Sigurðsson, Eysteinn Máni Oddsson og Patrik Hellberg hafa verið ráðnir þjáflfarar í hæfileikamótun drengja í hópfimleikum, Magnús Óli hefur yfirumsjón með verkefninu.

Hæfileikamótun drengja er þrískipt. Hæfileikamótunar æfingar, opnar æfingar og fimleikahringurinn. Nánari skýringar á hverjum hluta er að finna hér að neðan.

Hæfileikamótunar æfingar

Eysteinn Máni sér um framkvæmd hæfileikamótunar æfinganna en honum til aðstoðar eru Magnús Óli og Alexander. Æfingarnar eru í boði fyrir þá sem æfa fimleika nú þegar en eru ekki í úrvalshópum landsliða. Æfingarnar eru því ætlaðar iðkendum í kky, kke og eldri iðkendum. Uppfylla þarf lágmörk til að taka þátt í æfingunni en lágmörk eru breytileg og send út fyrir hverja æfingu. Stefnt er að því að hafa 3 æfingar á árinu 2021.

Markmiðið er að skapa vettvang fyrir iðkendur til að æfa saman, læra af hvor af öðrum og kynnast sem samherjar en ekki mótherjar, áhersla er lögð á samvinnu félaga og þjálfara. Markmiðið er svo að fjölga drengjum í íþróttinni og vonandi að ná í drengjalið fyrir Evrópumót í hópfimleikum á næstu árum. 

Opnar æfingar

Verkefnið er hluti af Hæfileikamótun sambandsins í hópfimleikum og sjá landsliðsþjálfararnir Magnús Óli og Alexander um framkvæmd þess í ár, þeim til aðstoðar er Eysteinn Máni.

Markmið verkefnisins er að auka þátttöku drengja í íþróttinni og verða opnar æfingar haldnar á mismunandi stöðum á landinu yfir árið. Æfingarnar eru haldnar fyrir stráka á aldrinum 2006-2012, þeim að kostnaðarlausu, bæði þeim sem æfa fimleika nú þegar og þeim sem hafa aldrei æft fimleika.

Hér má sjá myndband af æfingu frá því í fyrra:  

Hér má sjá kynningarmyndband um verkefnið:

Fimleikahringurinn

Fimleikahringurinn var endurvakinn í fyrra, árið 2020, þar sem karlalandslið Íslands í hópfimleikum fór í 10 daga sýningaferð hringinn í kringum Ísland og hélt átta fimleikasýningar og námskeið fyrir börn á öllum aldri á mismunandi stöðum á landinu. Mikil ánægja var með ferðina og var meðal annars gerð heimildarmynd um ferðina sem sýnd verður á RÚV þann 3. júní. Heimildarmyndin verður auglýst þegar nær dregur.

Í ár fer Fimleikahringurinn fram dagana 20.-28. júlí og mun nánari dagskrá koma von bráðar. Markmiðið með verkefninu er að hvetja til heilsueflingar ungmenna í landinu og kynna íþóttina fyrir Íslendingum hvaðanæva af landinu. Okkur langar í leiðinni að fá fleiri stráka í fimleikahreyfinguna þar sem þeir hafa verið í minnihluta okkar iðkenda, en umfram allt er markmiðið að allir fái að njóta sín á sínum forsendum sama af hvaða kyni þeir eru, því fimleikar eru fyrir alla. Æfingar í fimleikahringnum eru í boði fyrir stráka og stelpur, menn og konur, virka iðkendur, fyrrum iðkendur og alla þá sem hafa áhuga á að prófa fimleika. Á hverjum stað kynnir hópurinn fimleikafélagið í bænum og hvernig hægt er að skrá sig í fimleika fyrir næsta tímabil. Magnús Óli og Alexander sjá um framkvæmd verkefnisins og verða Eysteinn Máni og Patrik Hellberg þeim til aðstoðar.

Á Instagram síðu Fimleikasambandsins: icelandic_gymnastics má finna myndbönd og myndir af opnum æfingum og úr fimleikahringnum frá því í fyrra.

Við bjóðum Magnús Óla, Alexander, Eystein og Patrik velkomna til starfa og hlökkum til að vinna með þeim að uppbyggingarstarfi fyrir okkar ungu fimleikamenn.