Select Page

Samtök íþróttafréttamanna opinberuðu í morgun þau sem höfnuðu í efstu sætunum í kjöri á íþróttamanni ársins 2023. Thelma Aðalsteinsdóttir, áhaldafimleikakona er á listanum.

Árangur Thelmu á árinu hefur verið stór glæsilegur þar sem hæst ber að nefna Norður Evrópumóts titill á tvíslá. Thelma er Íslandsmeistari og bikarmeistari með liði sínu Gerplu. Thelma tryggði sér þátttökurétt á HM með frábæru gengi á EM í vor. Á heimsmeistaramótinu náði hún markmiðum sínum og endaði hún með 49.099 stig, sem er hennar besti fjölþrautrárangur á alþjóðlegu móti til þessa. Thelma var aðeins 0.866 frá því að tryggja sér sæti á Ólympíuleikana.

Thelma keppti til úrslita á heimsbikarmóti í haust, þar hafnaði hún í 7. sæti. Á Norður Evrópumótinu í nóvember varð hún sem fyrr segir Norður Evrópumeistari á tvíslá en hún var einnig meðlimur í kvennaliðinu sem varð aðeins 0.401 stigum frá bronsinu á Norður Evrópumótinu.

Fimleikasambandið er ákaflega stolt af Thelmu sem er að skapa sér nafn í fimleikum á heimsmælikvarða og er það umtalað í heiminum hvað glæsileikinn geislar af henni sem og jákvæðnin sem henni fylgir.

Fimleikasambandið óskar Thelmu, þjálfurum og félaginu hennar innilega til hamingju með árangurinn en er hún aðeins fjórða áhaldafimleikakonan í sögunni sem kemst á listann.

Fimleikar á top 10 listanum

1979 – 9. sæti: Sigurður T. Sigurðsson

1983 – 9. sæti: Kristín Gísladóttir (sjúkraþjálfari landsliða FSÍ)

1998 – 7. sæti: Rúnar Alexandersson og 10. sæti: Elva Rut Jónsdóttir

1999 – 6. sæti: Rúnar Alexandersson

2000 – 8. sæti: Rúnar Alexandersson

2002 – 7. sæti: Rúnar Alexandersson

2004 – 3. sæti: Rúnar Alexandersson

2006 – 9. sæti: Sif Pálsdóttir (þjálfari í hæfileikamótun stúlkna FSÍ og fyrrverandi landsliðsþjálfari unglinga í áhaldafimleikum)

2010 – 3. sæti: Íris Mist Magnúsdóttir (afreksstjóri hópfimleika FSÍ)

2012 – 9. sæti: Íris Mist Magnúsdóttir

2014 – 7.sæti: Sif Pálsdóttir

2018 – 9.sæti: Valgarð Reinhardsson (landsliðsmaður)

2021 – 2. sæti: Kolbrún Þöll Þorradóttir (landsliðskona)

2023 – Kemur í ljós 4. janúar: Thelma Aðalsteinsdóttir (landsliðskona)