Select Page

Systkinin Martin Bjarni og Hildur Maja Guðmundsbörn kepptu bæði á sínu fyrsta Evrópumóti í áhaldafimleikum þegar þau kepptu fyrir Íslands hönd í Basel í Sviss 21. og 22. apríl. Martin Bjarni hefur áður keppt á Evrópumóti unglinga en þetta var frumraun Hildar Maju á stóra sviðinu. Systkinin eru frá Selfossi en hafa bæði æft með Íþróttafélaginu Gerplu síðan þau muna eftir sér, Martin Bjarni í 16 ár og Hildur Maja í 10 ár.

Hildur Maja er í 10. bekk í Sunnulækjarskóla á Selfossi og stefnir á nám í Fjölbrautarskóla Suðurlands í haust. Hún hefur prófað að æfa frjálsar íþróttir, fótbolta og haldbolta en þykir henni svo skemmtilegt í fimleikum og félagsskapurinn góður að fimleikarnir höfðu vinninginn yfir hinar íþróttirnar. Uppáhalds áhaldið er gólf og slá enda mikill kraftur í okkar konu og geislar af henni á báðum þessum áhöldum. Draumurinn er að komast á Ólympíuleikana en í nánustu framtíð er markmiðið að komast á Heimsmeistaramótið í Japan í haust og alls ekki ólíklegt að við fáum að fylgjast með Hildi Maju þar.

Martin Bjarni býr í Reykjavík en hann útskrifaðist frá Fjölbrautarskóla Suðurlands í desember og starfar nú hjá Greenfit við mælingar á fólki með það að markmiði að ná betri árangri í þjálfun. Martin er með háleit markmið og ætlar á Olympíuleikana í París 2024 og við efumst ekki um að hann muni leggja allt undir til að nái því markmiði. Framundan er þó ekki minna mót, Heimsmeistaramótið í Japan þar sem Martin stefnir á að keppa fyrir Íslands hönd. Fimleikarnir eru það skemmtilegasta og jafnframt erfiðasta sem Martin gerir en fimleikarnir heilluðu þó fram yfir handbolta og fótbolta þar sem Martin náði góðum árangri í yngri flokkum en meðfram fimleikunum spilar hann golf, þó aðallega á sumrin.

Systkinin eru samrýmd í sinni íþrótt og eru dugleg að hvetja og ráðleggja hvort öðru. Martin segir um Hildi að hún sé með mikið keppnisskap, stríðin, dugleg og skemmtileg. Hildur segir um bróður sinn að hann sé metnaðarfullur, skipulagður og mjög góður stóri bróðir.

Fimleikasambandið er stolt af þessu flotta fimleikafólki og óskar þeim góðs gengis í framtíðinni.