Select Page

Litlu mátti muna að illa færi þegar að svifrá brotnaði í miðri keppnisseríu á Norðurlandamóti unglinga í dag. Rökkvi Kárason var að undirbúa sig fyrir kraftmikið afstökk þegar að svifráin gaf sig og féll með miklum látum í jörðina, snögg viðbrögð Rökkva í loftinu björguðu honum frá því að lenda illa þegar að hann skaust upp í loft við höggið sem myndaðist þegar að svifráin brotnaði, Rökkvi gekk sem betur fer heill á húfi frá ósköpunum. Mikil ringulreið skapaðist við slysið og þurfti að ferja nýrri svifrá inn í keppnissal sem tók um það bil 15 mínútur, Rökkvi fékk tækifæri til þess að endurtaka keppnisseríuna á nýju svifránni, sem hann þáði hugrakkur og sýndi hann nýja seríu með stæl.

Að öðru leiti þá gekk keppnin afskaplega vel fyrir sig. Íslensku keppendurnir mættu til leiks með bros á vör og geislaði af þeim glæsileikinn. Íslenska unglingalandsliðið í stúlknakeppninni hafnaði í fimmta sæti, ekki langt frá dönunum sem höfnuðu í því fjórða. Norskaliðið sigraði kvennakeppnina í dag. Íslenska unglingalandsliðið karlamegin hafnaði í því fjórða, á undan Dönunum en það var Finnland sem sigraði liðakeppnina.

Auður Anna Þorbjarnardóttir átti besta fjölþrautaárangur íslenskra keppanda kvennamegin í dag, hún hafnaði í 13. sæti með 44.499 stig. Lúkas Ari Ragnarsson, ríkjandi Íslandsmeistari í unglingaflokki, átti besta fjölþrautaárangurinn karlamegin með 68.498 stig í 14 sæti.

10 íslenskir keppendur í úrslitum á morgun

Alls komust 10 íslenskir keppendur í úrslit á einstökum áhöldum sem fara fram á morgun. Keppni hefst klukkan 08:00 á íslenskum tíma. Hér að neðan er listi yfir úrslitakeppendur og áhöldin sem þau keppa á.

Unglingaflokkur áhaldafimleikar kvenna

  • Auður Anna Þorbjarnardóttir – stökk
  • Lilja Katrín Gunnarsdóttir – slá
  • Kristjana Ósk Ólafsdóttir – gólf

Unglingaflokkur áhaldafimleikar karla

  • Lúkas Ari Ragnarsson – gólf og hringir
  • Davíð Goði Jóhannsson – stökk
  • Stefán Máni Kárason – tvíslá

Youth drengjaflokkur

  • Kári Pálmason – gólf, bogahestur, hringir, stökk, tvíslá og svifrá
  • Daníel Theodót Glastonbury – hringir og tvíslá
  • Ásgeir Smári Ásgeirsson – stökk
  • Davíð Þór Bjarnason – svifrá

Fimleikasamband Íslands óskar keppendum, þjálfurum og félögum innilega til hamingju með frábæran árangur á fyrsta degi Norðurlandamóts unglinga!

Áfram Ísland!!

Myndir frá deginum má finna hér.

Úrslit má finna hér.