Select Page

Íslenska fimleikafólkið mætti vel stemmt til úrslitakeppni í áhaldafimleikum í dag. Íslenskir keppendur voru með í úrslitum á öllum áhöldum – glæsilegur árangur í sjálfu sér.

3x GULL!

Þau Jónas Ingi Þórisson, Nanna Guðmundsdóttir og Þóranna Sveinsdóttir komu, sáu og sigruðu í dag.
– Nanna vann gullverðlaun á gólfi
– Þóranna vann gullverðlaun á tvíslá
– Jónas vann gullverðlaun á gólfi og bætti svo við bronsverðlaunum á bogahesti

Margrét Lea Kristinsdóttir tryggði sér brons á slá, og Rakel Sara Pétursdóttir vann silfur á stökki – aðeins 0,025 stigum frá gullverðlaununum!

Jón Sigurður kom inn í úrslitin á hringjum efstur. Eftir glæsilega hringjaseríu í dag lenti hann í smávægilegum vandræðum í aftökkinu, en fór engu að síður heim með brons um hálsinn.

Sigurður Ari Ragnarsson og Kári Pálmason kepptu einnig í úrslitum og stóðu sig vel.

Verðlaun komu á öllum áhöldum hjá konunum, og fara íslenskir keppendur heim með allar gerðir verðlauna, gull, silfur og brons!– stórkostlegur árangur hjá íslensku landsliðunum í áhaldafimleikum og frábær endir á glæsilegum keppnisdegi.

Fimleikalandsliðin hafa nú lokið keppni á Smáþjóðaleikunum.

Þau Ragna Þyrí Ragnarsdóttir og Sigurður Hrafn Pétursson stóðu sig ekki síður en keppendur í dómgæslunni. Hróbjartur Pálmar Hilmarsson, Jóhannes Níels Sigurðsson, Ólafur Garðar Gunnarsson og Hildur Ketilsdóttir voru keppendum innan handar og stóðu vaktina sem þjálfarar á Smáþjóðaleikunum.

Fimleikasamband Íslands óskar keppendum, þjálfurum og félögum innilega til hamingju með árangurinn.

Hér má finna úrslitin.

Hér verða myndir birtar.