Unglingalandslið Íslands stóðu sig ótrúlega vel í úrslitunum á EM í hópfimleikum í dag. Blandaða liðið gerði sér lítið fyrir og urðu Evrópumeistarar og stúlknaliðið endaði í 3. sæti.
Blandaða lið Íslands mætti í úrslit með látum og byrjaði daginn á öflugum trampolín stökkum og gerðu sér lítið fyrir og lentu öll stökkin og hækkuðu sig um 0.900 stig frá undanúrslitum. Liðið hækkaði sig einnig um 0.450 stig á gólfi eftir frábærar gólfæfingar. Liðið endaði á flottri dýnu, þar sem þau gáfu ekkert eftir. Þetta er sögulegur árangur, þar sem Ísland hefur aldrei orðið Evrópumeistarar í blönduðum flokki U18, en liðið hefur best náð þriðja sæti.
Íslenska liðið vann gólfæfingarnar og má segja að sú frammistaða hafi tryggt þeim gullið í dag. Mótið í blönduðum flokki var gríðarlega sterkt, Svíar urðu í öðru sæti og Bretar í því þriðja. Bretar eru að fara í fyrsta skipti á pall í keppni U18, á kostnað Dana sem hafa einokað pallinn um árabil.
Stúlknaliðið endaði mótið í 3. sæti á eftir Dönum og Svíum. Keppnin í stúlknaflokkinum var einnig mjög hörð en þrátt fyrir smá hnökra á stökkáhöldum enduðu þær í 3. sæti, sem er frábær árangur.
Íslenska drengjaliðið stóðu sig einnig ótrúlega vel og hækkuðu sig á öllum áhöldum og um meira en sex heil stig frá því í undankeppninni sem er frábær árangur þótt drengirnir náðu ekki á pall. Drengirnir enduði í 4. sæti með 46.000 stig.
Fimleikasambandið óskar öllum keppendum og þjálfurum innilega til hamingju með árangurinn.
Myndir frá deginum eru komnar inn á myndasíðu Fimleikasambandsins.
Úrslitin halda áfram á morgun þegar A landslið Íslands munu keppa um toppsætin. Kvennaliðið byrjar klukkan 8 á íslenskum tíma og blandaða liðið stígur á gólf klukkan 10. Úrslitin verða sýnd á rúv2 og rúv.












