Select Page

Íslensku unglingalandsliðin enduðu bæði á verðlaunapalli á fyrsta úrslitadegi Evrópumeistaramótsins í hópfimleikum.

Stúlknaliðið átti frábæran dag og bætti árangur sinn úr undankeppninni um fjögur stig. Stúlkurnar enduðu með 54.200 stig. Ekki munaði nema 0.1 stigi á Íslandi og sænska liðinu sem fór heim með Evrópumeistaratitilinn með 54.300 stig.

Stelpurnar geta þó borið höfuðið hátt enda fóru þær í gegnum úrslitin án þess að gera nein stór mistök og er framtíðin svo sannarlega björt í íslenskum hópfimleikum.

Um hálf sjö leytið hófst síðan úrslit í blönduðum unglingaflokki. Íslenska liðið mætti tilbúið til leiks og bætti árangur sinn í undankeppninni um tvö heil stig. Skilaði það liðinu bronsverðlaunum en Bretar fóru með sigur á hólmi í blönduðum flokki. Sænska landsliðið var í öðru sæti en slæm meiðsli á keppnisdegi gerði út af við titilvonir Svíana.

Óskar FSÍ unglingalandsliðum Íslands í hópfimleikum til hamingju með árangurinn.