Select Page

Dagur Kári Ólafsson braut blað í sögu íslenskra fimleika í dag þegar hann varð fyrstur Íslendinga til þess að tryggja sér sæti í fjölþrautarúrslitum á heimsmeistaramóti í áhaldafimleikum, hér í Jakarta, Indónesíu.


Dagur Kári átti frábæran dag í gær og var ljóst að hann ætti góða möguleika á úrslitum. Síðustu tveir hlutarnir fóru fram í dag og lauk síðasta hlutanum rétt í þessu.

Eftir mikla spennu og eftirvæntingu í dag er ljóst að Dagur Kári hafnaði í 24. sæti og er fyrsti íslenski keppandinn til þess að tryggja sér sæti í fjölþrautarúrslitum á heimsmeistaramóti.

„Það eru fá orð sem fá lýst hversu stolt ég er af fólkinu okkar öllu. Teymið á bak við þennan árangur og vinnan sem þau hafa lagt í verkefnið er ómæld og unnin af sannri ástríðu. Nú er uppskera og það eru forréttindi að fá að fylgjast með þeim ná markmiðum sínum. Þessi árangur er ekki aðeins vitnisburður um fagleg vinnubrögð og elju, heldur líka um samstöðu og ástríðu sem einkennir fólkið okkar. Gleðin heldur svo áfram á morgun þegar við hvetjum konurnar okkar til dáða. Áfram íslenskir fimleikar“ – Sólveig Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Fimleikasambands Íslands

„Erum að átta okkur á þessum niðurstöðum en erum staðráðnir í að nýta þetta tækifæri til fulls og skilja allt eftir í keppnissalnum.“ – segir Róbert Kristmannsson sem er í hálfgerðu sjokki eftir daginn

Fimleikasamband Íslands óskar Degi Kára innilega til hamingju með þennan tímamótaárangur. Hann keppir til fjölþrautarúrslita á HM þann 22. október. Íslenska kvennalandsliðið stígur á stóra sviðið á morgun, 21. október, og hvetjum við allt fimleikaáhugafólk til þess að fylgjast með og styðja þær áfram í undanúrslitunum.

Hér er úrslitalinkur.

Hér má nálgast myndir frá æfingum og keppni.