Select Page

Uppskeruhátíð Fimleikasambands Íslands var með öðru sniði þetta árið, vegna samkomutakmarkana. Starfsmenn sambandsins hittu viðurkenningarhafa og færðu þeim þakklæti fyrir góðan árangur og vel unnin störf innan fimleikahreyfingarinnar. Fylgjast má með samfélagsmiðlum næstu daga, þar sem heiðursmyndbönd verða birt.

Fimleikakona ársins

Fimleikakona ársins er Andrea Sif Pétursdóttir. Andrea Sif hefur um árabil verið okkar fremsta fimleikakona í hópfimleikum, ekki bara á Íslandi heldur einnig í Evrópu. Hún varð bikarmeistari með kvennaliði Stjörnunnar, þar sem hún keppti með stökk í hæsta erfiðleikaflokki og skilaði þeim vel. Andrea Sif keppti meðal annars á dýnu með tvöfalt straight með tvöfaldri skrúfu, sem er eitt erfiðasta stökk sem framkvæmt er hjá konum í hópfimleikum. Hún er ekki bara frambærileg fimleikakona heldur sterkur fyrirliði og glæsileg fyrirmynd ungu kynslóðarinnar. Við óskum Andreu Sif innilega til hamingju með titilinn. 

Fimleikakarl ársins

Fimleikakarl ársins er Jónas Ingi Þórisson. Jónas Ingi braut blað í íslenskri fimleikasögu í lok árs, þegar hann vann sér bæði inn sæti í úrslitum í fjölþraut, sem og á stökki, á Evrópumóti í unglingaflokki í áhaldafimleikum. Hann var einnig varamaður í úrslitum á gólfi og á tvíslá. Árangurinn er ekki síst eftirtektarverður fyrir þær sakir að síðasta mót Jónasar var Bikarmót sem fór fram í byrjun árs og því 10 mánuðir frá því að hann keppti síðast. Hann hafnaði í 17. sæti í fjölþraut á Evrópumótinu og í 7. sæti á stökki, en þetta eru fyrstu fjölþrautarúrslit Íslendinga á Evrópumóti. Við óskum Jónasi Inga innilega til hamingju með titilinn. 

Lið ársins

Lið ársins er hópurinn FFS, eða Fimleikar fyrir stráka. FFS skipuðu okkar fremstu hópfimleikamenn úr Gerplu og Stjörnunni. Þeir héldu opnar æfingar og sýningar á Höfuðborgarsvæðinu til að kynna fimleika í þeirri von að ná til fleirri iðkenda. Verkefnið endaði með hringferð um landið, þar sem Fimleikahringurinn var endurvakinn. Markmiðið með ferðinni var að fá fleiri stráka til að kynnast íþróttinni þar sem þeir hafa verið í minnihluta okkar iðkenda, en umfram allt var markmiðið að allir fái að njóta sín á sínum forsendum sama af hvaða kyni þeir eru, því fimleikar eru fyrir alla. Verkefnið tókst einstaklega vel þar sem hópurinn hélt sýningar og opnar æfingar sem voru vel sóttar af börnum bæjarfélaganna. Þetta verkefni sýnir hvað samvinnan er sterk innan fimleikahreyfingarinnar og það verður gaman að fylgjast með þróun og fjölgun í hópfimleikum á næstu árum, sérstaklega með tilliti til þessa verkefnis. Við óskum FFS hópnum innilega til hamingju með titilinn. 

Leiðtogi ársins

Leiðtogi ársins er Magnús Óli Sigurðsson. Magnús Óli er til fyrirmyndar hvað varðar ástríðu sína á þeim verkefnum sem hann tekur sér fyrir hendur. Hann sinnir þeim heilshugar og drífur aðra þátttakendur með sér. Magnús tók að sér að kynna fimleika fyrir stráka á líðandi ári, en strákar hafa verið í minnihluta í íþróttinni. Hann hóf verkefnið “Fimleikar fyrir stráka” þar sem Fimleikahringurinn var endurvakinn og okkar fremstu hópfimleikamenn fóru hringinn í kringum landið með það að markmiði að kynna íþóttina fyrir Íslendingum hvaðanæva af landinu. Verkefnið sló algjörlega í gegn og var þátttaka með besta móti. Magnús Óli lagði blóð, svita og tár í verkefnið og var afraksturinn til fyrirmyndar. Við óskum Magnúsi Óla innilega til hamingju með titilinn. 

Þjálfari ársins

Þjálfari ársins er Brynjar Sigurðsson. Hann vinnur mjög óeigingjarnt starf í þágu fimleikafélagsins á Akranesi, er alltaf boðin og búin til að hjálpa, fyrstur á svæðið ef eitthvað er um að vera og síðastur heim. Hann er sterkur leiðtogi og burðarás í þjálfarateymi félagsins. Hann hefur unnið hjá félaginu í bráðum 20 ár og ólíklegt er að fimleikafélagið væri jafn öflugt í dag eins og raun ber vitni, ef ekki væri fyrir eljusemi og ósérhlífni Brynjars. Við óskum Brynjari innilega til hamingju með titilinn.

Starfsmerki

Andrea Kováts-Fellner

Andrea er fyrrum landsliðskona Ungverja í áhaldafimleikum. Hún flytur í byrjun árs 2012 til Íslands ásamt eiginmanni sínum og nýfæddum syni og hefur störf sem fimleikaþjálfari hjá Gerplu. Á þessum næstum 9 árum hefur Andrea þjálfað allt frá ungum fimleikastúlkum til landsliðkvenna í fullorðinslandsliði Íslands við góðan orðstýr. Hún hefur verið landsliðsþjálfari í ferðum erlendis fyrir hönd Fimleikasambands Íslands og staðið sig virkilega vel. Hún er með mikinn metnað fyrir íþróttagreininni og gott auga fyrir æfingavali iðkenda sinna. Hún hefur sett sitt mark á íslenska fimleika og er hvergi nærri hætt, sem er fimleikum á Íslandi til framdráttar.

Ferenc Kováts

Ferenc flytur til Íslands í byrjun árs 2012 ásamt eiginkonu sinni og nýfæddum syni og hefur störf sem fimleikaþjálfari hjá Gerplu. Á þessum næstum 9 árum hefur Ferenc þjálfað allt frá ungum fimleikastúlkum til landsliðskvenna í fullorðinslandsliði Íslands við góðan orðstýr. Ferenc hefur einnig komið að þjálfun pilta í áhaldafimleikum hjá Gerplu. Ferenc hefur verið landsliðsþjálfari í ferðum erlendis fyrir hönd Fimleikasambands Íslands og staðið sig virkilega vel. Hann er með mikinn metnað og ástríðu fyrir fimleikum, hann er mjög duglegur að sækja sér námskeið og hvernig hann getur bætt þekkingu sína og færni iðkenda sinna í greininni. Opinn fyrir nýjungum og er með gott skipulag á æfingum.

Gylfi Guðnason

Störf Gylfa sem fimleikaþjálfari hjá Gerplu hafa vakið verðskuldaða athygli. Hann er íþróttafræðingur að mennt og hefur starfað hjá Íþróttafélaginu frá því árið 2002 og ávallt sinnt sínu starfi með alúð og af metnaði. Gylfi hefur lagt áherslu á og sérhæft sig í þjálfun yngstu iðkenda félagsins og hefur starfið í kringum yngstu börnin blómstrað undir hans leiðsögn. Störf Gylfa í Gerplu hafa spurst út og það er ekki síst fagmennska hans sem kynt hefur undir þá sókn sem krílafimleikar hafa verið í undanfarin ár. Hann mætir alltaf vel undirbúinn til vinnu og hefur mikinn metnað fyrir því sem hann tekur sér fyrir hendur. Gleði Gylfa og áhugi hefur haft smitandi áhrif á bæði nemendur sem og samtarfsfólk hans. Hann hefur einnig getið sér gott orð sem þjálfari í keppnisdeild karla. Gylfi er einnig þeim kostum gæddur að hann tekur að sér allskyns verkefni í félaginu t.d. að smíða pegboard og áhöld fyrir krílafimleika.

Mykola Vovk

Það er engum blöðum um það að fletta að Mykola Vovk er einn sá afkastamesti og sigursælasti þjálfari sem starfað hefur á Íslandi. Mykola kom til Gerplu árið 2000, en nýlega lét hann af störfum sökum aldurs. Á þessum 20 árum sem Mykola starfaði sem þjálfari Gerplu komu fram á sjónarsviðið margir af bestu fimleikmönnum sem Ísland hefur átt. Má þar nefna Dýra Kristjánsson, Viktor Kristmannsson, Róbert Kristmannsson, Ólaf Garðar Gunnarsson, Ingvar Jochumsson, Eyþór Baldursson og núverandi Íslandsmeistara Valgarð Reinhardsson. Þessi kynslóð fimleikamanna hefur stundum verið kölluð gullkynslóð fimleikanna í karlaflokki á íslandi. Með fagmennsku að leiðarljósi hefur Mykola unnið þrekvirki fyrir íslenska fimleika.

Yinian Ye

Yinian Ye starfaði hjá Íþróttafélaginu Gerplu á árunum 1994-2015. Á þeim tíma þjálfaði Ye marga af bestu fimleikamönnum landsins þar á meðal Eyþór Baldursson og Valgarð Reinhardsson. Ye hafði einstakt lag á að vinna með börnum og unglingum. Það er ekki síst gleði hans og metnaði fyrir að þakka að karlafimleikar á Íslandi blómstra sem aldrei fyrr. Allir sem stunduðu fimleika undir leiðsögn Ye bera honum söguna einstaklega vel. Ef teknar eru saman fjöldatölur um þá pilta sem Ye þjálfaði á árunum sem hann starfaði fyrir Gerplu þá skipta þeir piltar hundruðum. Ye er því einn afkastamesti þjálfari Gerplu fyrr og síðar. Það er ekki síst fyrir tilstuðlan þjálfara eins og Yinian Ye að Gerpla er í dag stærsta fimleikafélag landsins. Ye starfaði einnig sem alþjóðlegur dómari fyrir hönd Íslands og gat sér einstaklega gott orð á því sviði.

Þórir Arnar Garðarsson

Þórir Arnar þjálfar meistarahóp drengja hjá Ármanni, sem eru á góðri uppleið í sinni þjálfun. Þórir er sá þjálfari sem er með gríðarlega gott samband milli sín og sinna iðkenda og einnig er foreldrasambandið ótrúlegt. Hjá Þóri er lítið sem ekkert brottfall. Hann fer langt út fyrir sitt svið sem þjálfari þegar hann vinnur að félagslega þættinum hjá iðkendum sínum. Til að mynda eru ýmsir þemadagar, keppnir og fleira sem hann hugar að. Hann hefur byggt sinn hóp vel upp og hafa þeir unnið bikarmeistaratitla og unnið hin ýmsu mót ásamt því að vera með góða keppnisþátttöku. Þórir á í góðu sambandi við foreldra sinna iðkenda og sýnir það sig vel þegar fimleikadeild Ármanns heldur mót eða er með sýningar þar sem margir foreldranna koma sem sjálfboðaliðar og hjálpa mikið á hvaða hátt sem það er. Einnig hefur Þórir verið bóngóður þegar að Fimleikasambandið er að halda viðburði og verið stoð og stytta í skipulagi á áhaldflutningi og uppsetningu. Án sjálfboðaliða eins og hans, er ekki hægt að standa fyrir öllum þeim viðburðum sem skipulagðir eru fyrir fimleikafólkið okkar. Það er alltaf gott að leyta til Þóris og hann er öðrum þjálfurum í hreyfingunni mikil fyrirmynd þegar kemur að samvinnu hvort sem það er innan félags eða að vera öðrum félögum innan handar.