Select Page

Síðastliðinn laugardag fóru fram þrjár opnar samæfingar í áhaldafimleikum. Æfingarnar eru fyrstu skref í vali á nýjum úrvalshópum fyrir keppnisárið 2023. Alls voru 56 iðkendur skráðir á æfingarnar, frá níu félögum; Ármanni, Björk, Fjölni, FIMAK, Fylki, Gerplu, Gróttu, Keflavík og Stjörnunni.

Þau Róbert Kristmannsson, landsliðsþjálfari karla- og unglinga, Ferenc Kováts, landsliðsþjálfari kvenna og Sif Pálsdóttir, landsliðsþjálfari unglinga stýrðu æfingunum. Strákarnir æfðu í Fimleikafélaginu Björk, stelpurnar í Ármanni og kvennaflokkur í Egilshöllinni, húsi Fjölnis.

Skemmtilegt var að sjá ný andlit í hópunum og erum við sérstaklega spennt fyrir því að fylgjast með þessu glæsilega fimleikafólki á komandi tímabili.

„Stákarnir þurftu að gera fyrirframákveðnar æfingar, þrek og teygjur. Æfingin dróst aðeins á langinn, enda mikið sem við þurftum að komast yfir. Það var gaman að sjá ný andlit á æfingunni og strákarnir virtust spenntir fyrir komandi tímabili“

Róbert Kristmannsson, landsliðsþjálfari drengja.

Fimleikasamband Íslands þakkar þátttakendum kærlega fyrir komuna og félögunum fyrir aðstöðuna.