Select Page

Síðastliðinn laugardag, 12. september 2020, var ný viðbygging við Íþróttahúsið á Egilsstöðum opnað með formlegum hætti. Því miður gat Fimleikasambandið ekki verið viðstatt athöfnina þar sem að Fimleikaþing fór fram sama dag en hefur verið í góðum samskiptum við Fimleikadeild Hattar sem er í skýjunum með að draumurinn sé loksins orðinn að veruleika. 

Þakklæti er okkur efst í huga

Húsið, sem er sérstaklega ætlað fyrir fimleika og frjálsar íþróttir, var byggt af Hetti í samvinnu við sveitarfélag Fljótdalshéraðs og er það þúsund fermetrar að stærð. Auður Vala Gunnarsdóttir, yfirþjálfari fimleikadeildar Hattar, sem hlaut gullmerki FSÍ fyrr á árinu, hefur verið ein af þeim sem barist hefur fyrir því að aðstaða til fimleikaiðkunar sé bætt á Fljótsdalshéraði og er erfiði þeirrar baráttu loksins orðin að veruleika. Fimleikasambandið hringdi í Auði Völu en hún var skiljanlega hæst ánægð með daginn. 

„Dagurinn var frábær, fallegur og skemmtilegur og haldin var fimleikasýning. Fimleikadeildin bauð Hólfríði Jóhannsdóttur og Unnari Vilhjálmssyni á athöfnina en þau eru stofnendur fimleikadeildarinnar. Bæði hafa þau fylgst vel með starfinu í gegnum árin og það var svo frábært að þau gátu verið viðstödd og að þau hafi getað fagnað þessari merku stund með okkur. Það munar svo miklu að þurfa ekki að bera áhöldin inn og út fjórum sinnum í viku, þjálfararnir og iðkendurnir eru svo ánægðir með þetta. Þetta er svo dásamleg tilfinning, brosið fer ekki af þjálfurunum né af iðkendunum heldur – Þakklæti er okkur efst í huga.

Sagði Auður Vala

Húsið opnað ári á undan áætlun

Skóflustunga að íþróttahúsinu var tekin haustið 2018 og var áætlað að það yrði tilbúið árið 2021 en með dugnaði og viljann að vopni opnaði húsið ári á undan áætlun.  

Þar sem að Höttur hélt utan um framkvæmdina tókst að reisa húsið með ódýrari hætti en ella. Sveitarfélag Fljótsdalshéraðs lagði til 220 milljónir til verksins en sveitarfélagið var einnig það gæfuríkt að fjöldi sjálfboðaliða gáfu verkinu vinnu sína í þágu Hattar.  

Verkið sýnir samheldni

Meðal gesta við vígslu nýja hússins voru Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands; Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra; Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ og Hafsteinn Pálsson, 2. varaforseti ÍSÍ. Dáðust þau öll að samvinnunni og dugnaði þeirra sem komu að byggingu íþróttahússins. Í umfjöllun fréttamiðilsins Austurfréttar kemur fram að mennta- og menningamálaráðherra hafi sagt verkið sýna samheldni sem eftir væri tekið á landsvísu og því væri ástæða til að óska ekki bara Héraðsbúum heldur landsmönnum öllum til hamingju. 

„Það sýnir framsýni og þrautseigju að hugsa svona vel um samfélagið sitt“. 

Sagði Lilja Alfreðsdóttir

Auður Inga tók undir orð Lilju og sagði framkvæmdina ungmennafélagsandann í hnotskurn.  

Einnig kemur fram í frétt Austurfréttar að Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hafi vitnaði í Hrafnkelssögu Freysgoða og Hefnendurna, eða The Avengers, í ræðu sinni. Hann rifjaði upp að leiðtogi Hefnendanna hefði sagt að þar hefði kviknað sú hugmynd að hóa saman fólki og sjá hvort það gæti ekki gert eitthvað stórkostlegt saman. Það sýndi sig í fimleikahúsinu. Þá hefði Hrafnkell Freysgoði lagt áherslu á að ráðdeild væri dyggð og húsið væri sönnun þess. 

Það er nokkuð ljóst að húsið mun gjörbreyta æfingaaðstöðu íþróttamanna á Austurlandi og óskar Fimleikasamband Íslands Íþróttafélaginu Hetti innilegar hamingu- og heillaóskir með nýja húsið.