Select Page

Í fyrsta skipti í sögu FIMAK sendir fimleikafélagið frá sér lið sem mun keppa í frjálsum æfingum á Bikarmóti í áhaldafimleikum. Liðið skipa þær Emílía Mist, Martha Josefine Mekkín, María Sól, Salka og Elenóra Mist og eru fjórar þeirra á 16. aldursári og ein þeirra er á 15. aldursári. Fjórar þeirra eru að keppa í frjálsum æfingum í fyrsta skipti. Stelpurnar í liðinu hafa æft saman nánast frá upphafi og þekkjast því mjög vel.

Fimleikasambandið hafði samband við Erlu Ormarsdóttur, sem hefur starfað hjá félaginu í áraraðir og Mihaelu Bogodoi, þjálfara stelpnanna. Þær voru, eins og við má búast, afar stoltar af árangrinum og uppbyggingunni sem hefur verið í gangi hjá félaginu.

Við erum mjög stolt af því að vera loksins komin á þennan stað. Þessar stelpur hafa æft hjá FIMAK frá upphafi eða frá því þær voru litlar stelpur. Þær byrjuðu í áhaldafimleikum og lengst af æfðu þær hjá Florin og Mirelu. Í dag æfa þær undir stjórn Mihaleu og Jan. Við erum mjög stolt af árangri þeirra og að vera komin á þann stað að ná í lið fyrir Bikarmót í frjálsum æfingum. Það skemmir svo ekki fyrir að þær séu uppaldar hjá félaginu, þó svo að við tökum auðvitað alltaf vel á móti börnum sem flytjast til Akureyrar.

Hvernig hefur æfingarferlið gengið?

Æfingarferlið hefur að mestu leiti gengið vel og þegar þær vissu að þær myndu keppa sem lið í frjálsum æfingum þá virkaði það sem mikil hvatning fyrir stelpurnar. Þær hafa allar lagt sig fram og eru að reyna sitt besta.

Nú er Covid búið að gera mörgum íþróttamönnum lífið leitt og því frábært að sjá að FIMAK gat engu að síður skipað lið í frjálsum æfingum í fyrsta skipti. Hefur Covid ekki haft mikil áhrif á æfingarnar?

Á Akureyri vorum við svo heppin að lokunin í haust varði skemur en á höfuðborgarsvæðinu svo þetta hafði líklega minni áhrif á okkar iðkendur heldur en víða annarsstaðar. En stelpurnar voru mjög duglegar í stoppinu, mættu vel á zoom æfingar og stunduðu heimaæfingarnar samviskusamlega. Þó það sé auðvitað alltaf skemmtilegra að hittast á æfingum í salnum þá tóku þær þessu með miklu jafnaðargeði og gerðu það besta úr stöðunni. Helstu áhrifin voru líklega þau að mótadagskráin tók sífelldum breytingum í takt við faraldurinn.

Hver eru svo næstu skref og framtíðarsýnin hjá félaginu?

Þar sem þessu markmiði er náð, að ná í lið í frjálsum æfingum, þá er það von félagsins að héðan í frá getum við mætt með lið til leiks. Stelpurnar stefna svo að sjálfsögðu á að ná æfingunum enn betur og hækka erfiðleikann.

Akureyringar eru eins og áður sagði, mjög stoltir og hlakka mikið til þess að mæta á mótið. Bikarmótið fer fram um helgina í fimleikahúsi Gerplu í Versölum, Kópavogi. Keppni í frjálsum æfingum hefst klukkan 15:00 og geta áhugasamir annað hvort keypt sér miða á mótið eða fylgst með streyminu sem verður í beinni útsendingu.