Select Page

Norðurlandamót unglinga í áhaldafimleikum fór fram á laugardaginn í rafrænni útfærslu. Íslensku keppendurnir mættu í fimleikahús Bjarkanna og áttu verulega gott mót.

Það má með sanni segja að íslensku keppendurnir hafi staðið sig vel á mótinu og eiga þeir heiður skilinn fyrir mikla þolinmæði, þar sem að tafir voru á mótinu vegna þess að dómgæslan var í rafrænni útfærslu sem reyndist á köflum flókin fyrir löndin.

Dagur Kári Norðurlandameistari á bogahesti og svifrá

Dagur Kári Ólafsson kom, sá og sigraði á laugardaginn en hann varð Norðurlandameistari á bogahesti með einkunnina 13.350 og á svifrá með einkunnina 12.150. Hann varð jafnframt í 3. sæti í fjölþraut með samanlagðan árangur upp á 73.100. Dagur Kári er þekktur fyrir að vera í sérflokki hér á landi á bogahestinum og var hann til að mynda með hæstu einkunnina á bogahesti á Íslandsmótinu sem fram fór fyrr á árinu, því er ánægjulegt að sjá að hann er einnig fremstur á því áhaldi af þeim keppendum sem keppa á Norðurlöndunum.

Sigurður Ari með glæsilegan árangur

Sigurður Ari Stefánsson átti einnig mjög gott mót og hafnaði í 3. sæti á gólfi með einkunnina 12.750 og í 3. sæti á stökki með einkunnina 12.750 en það er gaman að segja frá því að Sigurður Ari er eini íslenski karlkyns keppandinn í frjálsum æfingum sem framkvæmir Yurchenco stökk, sem er arabaflikk inn á hestinn með heljarstökki af hestinum þar sem afsvifið getur verið með mismunandi útfærslum.

Ragnheiður Jenný sýndi hvað í henni býr!

Það voru ekki bara strákarnir okkar sem nældu sér í verðlaun á mótinu en Ragnheiður Jenný Jóhannsdóttir, er mjög efnileg fimleikakona úr Björk. Hún átti frábært mót og hafnaði í 2. sæti á gólfi með einkunnina 12.133 og 8. sæti í fjölþraut með 44.998 stig hæst íslensku stúlknanna en fast á hæla hennar var Dagný Björt Axelsdóttir úr Gerplu sem varð í 9. sæti með 43.232 stig.

Silfurdrengirnir

Karlaliðið okkar toppaði svo helgina með því að lenda í 2. sæti í liðakeppninni og krækti liðið sér því í silfurverðlaunin.

Úrslit mótsins má nálgast hér.

Fimleikasambandið óskar öllum keppendum innilega til hamingju með árangurinn um helgina, einnig viljum við þakka Fimleikafélaginu Björk fyrir að hafa haldið mótið og dómurum og öðrum sjálfboðaliðum þökkum við kærlega fyrir aðstoðina.

Myndir eru væntanlegar inn á Myndasíðu Fimleikasambandsins.