Þá hefur Nonni lokið keppni á Apparatus World Cup í Cottbus og Doha, en ferðaðist hann heim síðastliðinn laugardag. Næst á dagskrá hjá Nonna er Apparatus World Cup í Cairo, Egyptalandi.
Nonni stóð sig frábærlega á báðum mótunum og uppskar 12.866 stig í Cottbus og hafnaði þar í 15.sæti og 12.600 í Doha og endaði þar í 13.sæti, í báðum tilfellum hársbreidd frá því að vinna sér inn sæti í úrslitum á hringjum. En mótaröðin heldur áfram og er stoppið hans hér á Íslandi stutt að þessu sinni, þar sem hann, ásamt þjálfara sínum Yuriy leggja aftur af stað í ferðalag eftir eina viku, 14. mars, þá til Cairo.
Fréttablaðið fjallaði um mótaröðina þegar Nonni hafði lokið keppni í Doha og í fréttinni má finna myndband af glæsilegri hringjaseríu hans frá mótinu.
Eins og fram kemur í frétt Fréttablaðsins þá er Nonni eini Íslendingurinn sem tekur þátt í mótaröðinni að þessu sinni, en með góðum árangri er möguleiki á að vinna sér inn keppnisrétt á einstöku áhaldi á Heimsmeistaramótinu sem fer fram í Liverpool, Englandi í ágúst á þessu ári.
Við hjá Fimleikasambandi Íslands höldum spennt áfram að fylgjast með ferðalaginu – Áfram Ísland.