Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt.
Í dag kvöddum við Hlín okkar Árnadóttur í hinsta sinn. Við minnumst konu sem með elju og seiglu barðist fyrir uppgangi fimleika alla sína ævi, alltaf með bros á vör og hlýju sem fangaði unga sem aldna og þannig smitaði hún gleðinni til allra þeirra sem með henni störfuðu.
Hlín var ekki bara góður þjálfari sem helgaði sig starfinu heldur einnig góður félagi nemenda sinna og lagði sig fram við að vera til staðar fyrir sitt fólk. Hún var frumkvöðull í íslenskum fimleikum, hvatti þjálfara, iðkendur og alla þá sem að starfinu komu til dáða á sinni löngu starfsævi. Hlín var fyrirmynd fyrir alla í íþróttahreyfingunni, það finnst vart það starf innan hreyfingarinnar sem hún hefur ekki gengið í en fyrst og fremst var hún þjálfari sem náði góðum árangri með nemendur sína í gegnum árin, margir þeirra urðu Íslands og bikarmeistarar og tóku sæti í landsliðum Íslands. Þessum árangri náði hún þrátt fyrir bágborna aðstöðu til að byrja með. Á löngum starfsferli sínum hjá Fimleikafélaginu Björk barðist hún alltaf fyrir velferð félagsins og hefur aðstaða félagsins breyst mikið í áranna rás, fyrsti sigurinn fólst í púðagryfju og að lokum tókst að koma upp fyrsta sérhæfða fimleikahúsi landsins og er það ekki síst Hlín að þakka. Þegar púðagryfjan var opnuð hafði Hlín það að orði að byltingin í aðstöðumuninum væri slík að það væri eins og að hoppa úr eins hreyfils flugvél yfir í þotu.
Það hafa verið forréttindi að fá að starfa með og læra af Hlín. Ástríðan sem hún hafði fyrir fimleikum mun lifa áfram í hreyfingunni. Hún minnti okkur á að vera alltaf fagleg, góð og styðjandi við alla iðkendur og einnig hversu mikilvæg menntun þjálfara væri, því uppeldis- og sálfræðiþátturinn væru ekki síður mikilvægir en þjálfunin sjálf.
Með auðmýkt og þakklæti sendir Fimleikasamband Íslands fjölskyldu og vinum Hlínar dýpstu samúðarkveðjur. Minning um magnaða konu lifir áfram í hjörtum okkar allra.