Select Page

Unglingalandslið Íslands í áhaldafimleikum karla tóku þátt í liðakeppni á Junior Team Cup í Berlín, í dag.

Keppendur eru þeir Ari Freyr Kristinsson, Lúkas Ari Ragnarsson, Sigurður Ari Stefánsson og Stefán Máni Kárason. Þjálfarar á mótinu eru þeir Hróbjartur Pálmar Hilmarsson og Ólafur Garðar Gunnarsson, en með þeim er Þórir Arnar Garðarsson, alþjóðlegur dómari.

“Í hópnum er mikil samheldni!  Vinátta og sterk liðsheild er það sem einkennir þennan hóp og það sama má segja um undirbúninginn” segir Hróbjartur Pálmar eftir daginn í dag.

Ísland hefur tekið þátt á Junior Team Cup síðastliðin ár og það má segja að keppnin verði sterkari og sterkari með árunum sem líða, í dag kepptu 28 lið. Sigurður Ari keppti í aldursflokki eitt og hafnaði hann í 45 sæti, með tæp 70 stig. Þeir Ari Freyr, Lúkas Ari og Stefán máni kepptu allir í aldursflokki tvö og bestan árangur Íslendinga í fjölþraut í þeim flokki átti hann Lúkas Ari með 63.800 stig.

Lúkas gerði sér lítið fyrir og hafnaði í sjötta sæti á stökki og vann sér inn keppnisrétt í úrslitum á morgun. Lúkas gerði flott stökk í dag en það má segja að hann eigi mikið inni fyrir morgundaginn og verður skemmtilegt að fylgjast með honum sýna hvað í honum býr.  

Hægt verður að fylgjast með einkunnagjöf hér og mun myndband af úrslitastökkinu hans birtast á Instagram síðu sambandsins, skömmu eftir keppni. Lúkas keppir klukkan 11:45 á íslenskum tíma.

“Strákarnir áttu góðan dag, þeir komu og skiluðu sínu, þeir hafa verið vinnusamir í salnum og sýndi það sig á stóra sviðinu í dag” – Hróbjartur Pálmar.

Fimleikasamband Íslands óskar keppendum innilega til hamingju með daginn og fylgjumst við spennt með morgundeginum.

Áfram Ísland!

Myndir frá mótinu má finna hér.