Sænska meistaramótið í hópfimleikum var haldið í Umeå, Svíþjóð helgina 30. júni – 2. júlí þar sem þrír íslenskir keppendur tóku þátt, Laufey Ingadóttir, Ásmundur Óskar Ásmundsson og Karítas Inga Jónsdóttir.
Laufey keppti með Brommagymnasterna, sem átti titil að verja, en 9 kvennalið tóku þátt í undanúrslitum og 3 lið komust áfram í úrslitin. Laufey er lykilmanneskja í liðinu en hún keppti í 5 af 6 umferðum. Liðið sigraði örugglega með 55.075 stig, 2.475 stigum á undan GK Motus-Salto.
Hér má sjá myndband af Brommagymnasterna á mótinu.
Laufey sem æfði með Stjörnunni áður en hún flutti til Svíþjóðar, hefur æft með Brommagymnasterna frá september 2022, en þetta var hennar fyrsta mót eftir að hafa slitið hásin árið 2021.
Ásmundur Óskar keppti með liði Brommagymnasterna sem endaði í 3. sæti í karlakeppninni og Karítas Inga með GK Motus-Salto sem tók 2. sæti í kvennakeppninni.
Hér má sjá myndband af mótinu í heild sinni.
Við óskum öllum keppendum til hamingju með frábæran árangur.