Þorgeir Ívarsson hefur verið ráðinn sem landsliðsþjálfari unglinga í áhaldafimleikum kvenna. Þorgeir hefur mikla reynslu sem þjálfari í áhaldafimleikum og hópfimleikum en hann hefur þjálfað fimleika til fjölda ára.
Þorgeir hefur ekki bara reynslu á þjálfun hérlendis en árið 2020 starfaði hann sem aðstoðaryfirþjálfari í áhaldafimleikum kvenna í bresku fimleikafélagi. Þorgeir hefur farið á þjálfaranámskeið bæði í áhaldafimleikum og hópfimleikum hjá Evrópska Fimleikasambandinu (European Gymnastics) en hann hefur einnig sótt sér fjölda þjálfaranámskeiða í Bretlandi.
Þorgeir er metnaðarfullur þjálfari og hefur hann reynslu af landsliðsþjálfun, hann hefur tekið þátt í þremur Evrópumótum í hópfimleikum, þar með talið var hann partur af landsliðsjálfarateymi íslenska kvennalandsliðsins sem landaði Evrópumeistaratitilinum árið 2021 og nældu sér svo silfur árið 2022.
Við bjóðum Þorgeir velkominn til starfa og hlökkum mikið til að vinna með honum að uppbyggingu íslenskra fimleika.