Kvennalið Íslands keppti til úrslita á Evrópumótinu í hópfimleikum í dag. Stelpurnar mættu með trompi á fyrsta áhald og gerðu sér lítið fyð fyrir að lenda öll stökkin og fengu 18.250 stig fyrir dýnuna, 0.650 hærra en sænska liðið sem er stærsti keppinautur þeirra. Flugeldasýningin hélt áfram á trampolíninu, en stelpurnar gáfu ekkert eftir og lentu öll stökkin. Þær enduðu daginn á glæsilegum gólfæfingum þar sem þær hækkuðu sig um 0.650 stig frá undanúrslitum.
Kvennalið Íslands vann Evrópumeistaratitilinn síðast 2021 og þar áður 2010 og 2012. Baráttan um titilinn hefur verið á milli Svíþjóðar og Íslands um árabil.
Stelpurnar unnu bæði dýnuna og gólfæfingarnar og má segja að það hafi tryggt þeim sigurinn í dag. Svíar lentu í öðru sæti aðeins 0.450 stigum á eftir Íslandi og Noregur tók þriðja sætið, sem þýðir að Danmörk er ekki á palli í kvennaflokki í ár. Frábær byrjun á deginum, en úrslitin halda áfram þegar blandaða lið Ísland stígur á gólf klukkan 10 á íslenskum tíma.
Blandaða lið Ísland steig á gólf á eftir kvennaliðinu. Þrátt fyrir hnökra tryggðu þau sér 5.sæti með 49.850 stig. Helgi Laxdal í blandaða liði Íslands er einnig þjálfari drengjaliðsins sem keppti í úrslitum í gær.
Við óskum keppendum og þjálfurum innilega til hamingju með árangur dagsins.