Jónas Ingi Þórisson braut blað í íslenskri fimleikasögu í dag og vann sér inn sæti í úrslitum í fjölþraut og á stökki á Evrópumóti í unglingaflokki í áhaldafimleikum dag. Auk þess er hann varamaður í úrslitum á gólfi og tvíslá.
Árangurinn er ekki síst eftirtektanverður fyrir þær sakir að síðasta mót sem Jónas Ingi keppti á var Bikarmót FSÍ sem fram fór í febrúar á þessu ári og því eru 10 mánuðir frá því að hann keppti síðast. Á þessu tímabili hefur Covidfaraldurinn einnig sett stórt strik í reikninginn þar sem hann hefur tvisvar sinnum þurft að gera hlé frá æfingum vegna sóttvarnareglna á Íslandi. Aðdáunarvert hefur verið að fylgjast með eljusemi og metnaði Jónasar Inga þar sem hann hefur snúið til baka til æfingar eins og sannur íþróttamaður og sett sér háleit markmið sem hann náði í dag.
Viðbrögð Jónasar Inga við árangrinum voru auðmýkt og þakklæti eins og við var að búast frá íþróttamanni eins og honum. Róbert Kristmannsson landsliðsþjálfari Íslands var að vonum stoltur af sínum manni og hafði hann þetta um árangurinn að segja: „Frábær árangur hjá ótrúlegum íþróttamanni, ef þú elskar það sem þú ert að gera og ert tilbúinn að leggja á þig vinnuna, þá eru þér allir vegir færir“.
Mótið fer fram í Tyrklandi dagana 9. -13. desember, Jónas Ingi mun keppa til úrslita í fjölþraut þann 11. desember og í úrslitum á stökki 13. desember. Á morgun keppir svo Valgarð Reinhardsson í undankeppni mótsins og verður að fylgjast með hans framgangi.
Hér að neðan má sjá samantekt af frábærum æfingum Jónasar Inga frá því fyrr í dag.