Select Page

Síðastliðna helgi var ÍSÍ þing haldið hátíðlegt í íþróttamiðstöðinni Ásvöllum, Hafnarfirði. Fyrir þinginu lágu 19 tillögur og var starfað í 4 nefndum; fjárhags-, allsherjar-, laga-, og afreksnefnd. Þingstörf gengu vel fyrir sig, þingfulltrúar tóku mjög virkan þátt í nefndarstörfum og unnu að því bæta enn frekar, gott starf íþróttahreyfingarinnar á Íslandi.

Olga í stjórn ÍSÍ

Níu einstaklingar buðu sig fram í sjö sæti meðstjórnenda í framkvæmdastjórn ÍSÍ. Olga Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri Gerplu, var ein af þeim sjö sem hlutu kosningu til næstu fjögurra ára, með henni hlutu þau Daníel Jakobsson, Elsa Nielsen, Hafsteinn Pálsson, Hjördís Guðmundsdóttir, Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttr og Ragnheiðu Ríkhardsdóttir einnig kjörgengi. Olga, sem hefur setið í stjórn ÍSÍ undanfarin 4 ár, sóttist eftir endurkjöri og gerði sér lítið fyrir og hlaut flest atkvæði allra í kjörinu sem er mikill stuðningur við hennar störf í stjórn ÍSÍ. 

Fimleikasambandið óskar nýrri stjórn til hamingju með kjörið.

Anna R. Möller og Elsa Jónsdóttir heiðraðar

Þær Anna R. Möller og Elsa Jónsdóttir voru báðar kjörnar heiðursféagar ÍSÍ, en þær hafa skilað framúrskarandi starfi í þágu íþrótta á íslandi, þær hafa báðar hlotið heiðurskross ÍSÍ sem er þeirra æðsta heiðursviðurkenning. Báðar hafa þær verið ötulir sjálfboðaliðar í þágu fimleikahreyfingarinnar í sínum störfum.

Anna var formaður fimleikadeildar Stjörnunnar um árabil og formaður Stjörnunnar í þrjú ár. Anna sat í stjórn Fimleikasambands Íslands og var framkvæmdastjóri sambandsins í um tíu ár.

Elsa á að baki langan og farsælan feril í leiðtogastörfum fyrir íþróttahreyfinguna. Þar ber helst að nefna ómetanlegt framlag hennar til fimleikaíþróttarinnar en Elsa var í forystu Íþróttafélagsins Gerplu í áratug, á árunum 1983-1993, lengst af sem formaður fimleikadeildar en einnig eitt ár sem formaður félagsins. Hún sat einnig í stjórn Fimleikasambands Íslands í 10 ár.

Þær Anna og Elsa eru sannarlega vel að viðurkenningunni komnar og við hjá Fimleikasambandinu erum stolt af þeim og þeirra framlagi til hreyfingarinnar sem hefur verið okkur öllum til heilla.