Select Page

Íslandsmótið í hópfimleikum fer fram um næstkomandi helgi, þann 4.-6. júní í Fimleikahúsinu á Akranesi. Mikil spenna er í loftinu þar sem tvö ár eru liðin frá því að mótið var haldið. Mótið verður það umfangsmesta til þessa, þar sem keppt verður A deildum allra flokka. Meistaraflokkur og 1. flokkur hefja keppni 4. júní kl. 16:35 og hefst bein útsending á RÚV kl. 17:00. Miðasala fer fram á tix.is.

Búist er við æsi spennandi keppni í ár, en nýkrýndir Bikarmeistarar Stjörnunnar í kvennaflokki eiga titil að verja. Á Íslandsmótinu 2019 sigarði lið Stjörnunnar lið Gerplu með 3.425 siga forskoti og er ljóst að keppnin í ár verður hörð, þar sem einungis munaði 1.600 stigum á liðunum á Bikarmóti sem fram fór fyrir tveimur vikum síðan. Núverandi Íslandsmeistarar í karlaflokki er lið Gerplu en Gerpla mun ekki senda frá sér karlalið í ár, Stjarnan sendir hins vegar tvö karlalið til keppni. Von er á flugeldasýningu frá karlaliði Stjörnunnar en þeir hrepptu Bikarmeistaratitilinn í maí með yfirburðum.

Á Bikarmótinu voru framkvæmd stökk sem við höfum aldrei séð framkvæmd á innlendu móti áður, bæði í kvenna og karlaflokki og verður því spennandi að sjá hvort þau stökk verði framkvæmd aftur á Íslandsmótinu.

Keppni í 1. flokki er gríðarlega jöfn í ár, en þrjú lið eru í harðri baráttu um titilinn. Úrslit Bikarmótsins röðuðust svo að Selfoss sigraði, Gerpla varð í öðru sæti og Stjarnan í því þriðja.

Skipulag mótsins má finna hér.

Mótið er liður í undirbúningi fyrir Evrópumótið í hópfimleikum sem fram fer í Porto í Portúgal, 1.-4. desember, en landsliðshópar verða tilkynntir í kjölfar mótsins.

Áhugasamir geta byrjað að hita upp fimleikaaugað með því að fylgjast með heimildamynd um Fimleikahringinn 2020, sem sýnd verður á RÚV fimmudaginn 3. júní kl. 20:00.

Við óskum öllum iðkendum og þjálfurum góðs gengis um helgina og hlökkum til að fylgjast með besta fimleikafólki landsins etja kappi um titlana.

Tengiliður fjölmiðla er Íris Mist Magnúsdóttir, sími: 866-7652, tölvupóstur: iris.mist@fimleikasamband.is.