Select Page

Bikarmót Íslands í áhaldafimleikum og hópfimleikum 2025 nálgast – hverjir verða í toppbaráttunni?

Fimleikaunnendur geta farið að hlakka til, því eitt stærsta mót ársins, Bikarmót Íslands í áhaldafimleikum og hópfimleikum 2025, fer fram um næstkomandi helgi, dagana 21.–23. mars, í fimleikahúsi Fjölnis, Egilshöll. Þar mun fremsta fimleikafólk landsins etja kappi og sýna glæsileg tilþrif, bæði í hópfimleikum og áhaldafimleikum.

Spennandi keppni framundan

Bikarmótið er einn af hápunktum fimleikaársins og mikilvægur viðburður fyrir keppendur sem stefna á stærri mót, bæði innanlands og erlendis. Í fyrra var keppnin æsispennandi, þar sem lið Gerplu í áhaldafimleikum og lið Stjörnunnar í kvennaflokki hópfimleika stóðu uppi sem sigurvegarar. En í ár gæti baráttan orðið enn harðari – verður titillinn varinn, eða sjáum við nýja meistara stíga fram?

Þéttpökkuð dagskrá alla helgina

Bikarmótið hefst á föstudaginn með keppni í 2. flokki hópfimleika, 1. þrepi kvenna, 1.–2. þrepi karla og í gestir í frjálsum æfingum í áhaldafimleikum. Öll helgin verður þéttpökkuð og keppni fer fram í báðum keppnissölunum frá morgni til kvölds.

Á sunnudaginn stíga meistaraflokkarnir á svið. Keppni í áhaldafimleikum hefst kl. 11:50 með innmarsi karla, en kl. 16:55 færist athyglin yfir í hópfimleikasalinn, þar sem keppt verður í meistaraflokki hópfimleika.

👉 Skipulag keppninnar má finna hér fyrir áhaldafimleika og hópfimleika.

Keppni í beinni á RÚV

RÚV mun sýna keppni í frjálsum æfingum og meistaraflokki í beinni útsendingu:

🕛 12:00 – Bikarmót í áhaldafimleikum
🕔 17:00 – Bikarmót í hópfimleikum

Góð skemmtun í vændum

Fimleikasamband Íslands óskar keppendum góðs gengis og áhorfendum góðrar skemmtunar!

📸 Myndir frá mótinu verða birtar hér.